145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[16:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni málefni Tónlistarsafns Íslands í Kópavogi. Til þessa safns var stofnað 2009 með samningum milli þáverandi ríkisstjórnar og Kópavogsbæjar. Mönnum ber ekki saman um það hvernig þetta samkomulag hefur verið efnt, en eitt er víst, Kópavogsbær er nú að gefast upp á því að standa straum af rekstri þessa safns að því leyti sem hann hefur gert undanfarin ár og það stefnir í að safnið verði eftir áramót hvorki fugl né fiskur og standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til opinberra safna á Íslandi.

Þetta safn, Tónlistarsafn Íslands, er falin perla. Þar er að finna mjög marga dýrmæta hluti og verðmæti. Þeir starfsmenn sem þarna hafa unnið til þessa hafa safnað munnlegri geymd og upplýsingum um íslenska tónlist sem er hvergi til annars staðar. Þeir hafa bjargað ótal hlutum frá glötun. Einnig hafa safninu verið færðir að gjöf ýmsir munir, m.a. úr eigu Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar sem samdi íslenska þjóðsönginn. Í safninu er einnig að finna muni úr búi Erlings Blöndals Bengtssonar sellósnillings sem þessu safni voru færðir til varðveislu. Það er næsta víst, herra forseti, að þessu safni voru ekki færðir allir þessir hlutir til að vera settir í einhvern kassa einhvers staðar vegna þess að menn hafi ekki efni á að reka safnið áfram.

Því heiti ég á fjárlaganefnd þingsins og hæstv. menntamálaráðherra að finna leið til þess að hægt sé að reka safnið óbreytt árið 2016 til að tími gefist til þess að ríkið (Forseti hringir.) og Kópavogsbær geti komið sér saman um það hvernig framtíðarrekstur safnsins verði tryggður.


Efnisorð er vísa í ræðuna