145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[16:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir glímuna við eftirleik hrunsins erum við á Íslandi í mjög öfundsverðri aðstöðu. Hagvöxtur er hér meiri en annars staðar í hinum vestræna heimi og efnahagshorfur eru góðar. Þess vegna skiptir miklu máli að nýta það lag sem við búum nú við. Við höfum efni á að gefa fólki færi á að afla sér framhaldsmenntunar. Við þurfum ekki að halda áfram að skerða aðgang að framhaldsskólum eins og ríkisstjórnin er að gera nú eða fækka í háskólum. Við getum gefið öllum færi á að nýta hæfileika sína og komast til náms.

Við getum líka mætt eðlilegum kröfum Landspítalans um nauðsynlegt rekstrarfé og eigum ekki að búa honum þær aðstæður að forstjóri Landspítalans þurfi trekk í trekk, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár að lýsa yfir yfirvofandi skelfingarástandi á Landspítalanum ef menn samþykkja óbreytt fjárlög ríkisstjórnarinnar. Það er skelfilegt að þrjú ár í röð hafi það verið yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi að Landspítalanum sé ekki kleift að reka sig í samræmi við grunnþarfir þjóðarinnar. Við höfum efni á því og getum staðið við hið eðlilega fyrirheit að aldraðir og örorkulífeyrisþegar njóti sömu lágmarkskjara og þeir sem eru á vinnumarkaði, að þeir njóti fulls jafnræðis. Við höfum áður gert það, m.a.s. á miklum niðurskurðartímum, árið 2011. Það er engin afsökun fyrir því, nú þegar gerðir hafa verið láglaunasamningar, að ríkisvaldið standi ekki við sitt gagnvart lífeyrisþegum. Við höfum efni á því, við höfum aðstæður til að tryggja réttláta deilingu gæðanna og eigum að nýta þær aðstæður.


Efnisorð er vísa í ræðuna