145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[16:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í morgun fengum við fulltrúa frá Vaðlaheiðargöngum til að fara yfir stöðuna. Misvísandi fréttir hafa borist, sumar neikvæðar, af framgangi mála. Mér er ljúft og skylt að segja frá því að nú ganga framkvæmdir vel. Verkinu miðar áfram um eina 40 metra á viku. Það er komið í þéttara berg og hitastig fer lækkandi Eyjafjarðarmegin. Þetta eru góð tíðindi sem segja okkur að framgangur verksins verður vonandi með öðrum hætti en hann hefur verið upp á síðkastið. Menn lentu í ófyrirséðum hlutum, eins og að heitt vatn streymdi út úr berginu. Jafnvel þó að menn hafi lent í vatnselg í öðrum sambærilegum jarðgangaframkvæmdum hefur það kannski ekki verið með þeim hætti að jafn heitt vatn hafi komið. Þetta var Eyjafjarðarmegin.

Svo horfa menn fram á að geta lagt af stað Fnjóskadalsmegin fljótlega á nýju ári. Þetta þýðir að verkið tefst ekki um meira en eitt ár sem er gríðarlega jákvætt. Það er líka upplýst að vatnið sem finnst er hæft til neyslu og verður væntanlega nýtt þannig á Svalbarðseyri þar sem hefur verið skortur á neysluvatni. Menn lenda þá í svipuðu og gerðist með Vestfjarðagöngin þar sem vantaði kalt vatn og fínt neysluvatn fannst. Ég vildi bara segja frá þessum góða fundi sem við áttum í morgun og að verkefninu miðar núna vonandi mjög vel áfram, allt bendir til þess (Forseti hringir.) og einnig að verkefnið muni nýtast meira til samfélagslegra verkefna en menn töldu áður.


Efnisorð er vísa í ræðuna