145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hefja máls á þessu stóra máli okkar. Ég vil geta þess í upphafi að ég var þegar búin að leggja drög að því við forseta Alþingis að ég flytti hér skýrslu um þetta mál. Hins vegar var ákveðið að hafa þennan háttinn á. Ég hefði flutt Alþingi skýrslu áður en ég hefði haldið til Parísar af því að ég vildi gjarnan eiga orðastað við þingheim um þetta stóra mál.

Mér finnst afar leitt ef fyrirspyrjanda finnst sú metnaðarfulla áætlun sem unnin er af sex ráðuneytum undir stjórn okkar í umhverfisráðuneytinu götótt. Ég held að fólk hafi einmitt lagt mikla vinnu í hana og margra ára vinna lítur hér dagsins ljós með þessum metnaðarfullu áætlunum. Vissulega hefur aðgerðaáætlun verið í gangi en hvorki fjármunir né annað verið sett í hana. Ég held að hér sé ákveðinn viðburður á ferðinni.

Eins og ég fékk málið í hendur vildi málshefjandi tala um markmið Íslands, loftslagsráðstefnuna í París og framlag Íslands til loftslagsráðstefnunnar. Mun ég nokkuð fara yfir þetta þrennt.

Markmið Íslands var lagt fram í júní eins og fyrr hefur verið sagt frá, að vera með Evrópuríkjum og Noregi um 40% losun. Við stöndum við það. Síðan fórum við að huga að því hvað við gætum gert betur varðandi Ísland sjálft og settum nýjan kraft í verkefni og mörg ný sem ekki hafa áður verið tekin til umræðu. Við viljum horfa á styrkleika okkar og hvernig við getum nýtt þann styrkleika sem landið hefur til að styrkja þá veikleika sem við finnum og viljum bæta um betur í. Þess vegna miða þessi verkefni okkar við þá möguleika, hvernig við getum jafnvel notað okkar endurnýjanlegu orku enn betur. Hvert sem maður fer um heiminn er horft til okkar og við öfunduð af að eiga svona mikið af endurnýjanlegri orku. Þegar talað er um losun er umræðan um hvernig ríki heims geta dregið úr orkusóun og nýtt sér aðra orku, helst græna, og hana höfum við. Hvernig eigum við að nýta hana enn frekar til að draga úr notkun jarðefniseldsneytis í samgöngum, bæði í bílaflotanum og sjávarútvegi? Þess vegna viljum við setja af stað og halda utan um verkefni sem styrkja innviði fyrir rafbíla og líka vinna að vegvísum sem minnka losun bæði í sjávarútvegi og landbúnaði.

Að mínu viti er sóknaráætlunin nú mjög víðtæk og skiptist, má segja, í þrjá þætti. Fyrst eru hugmyndir um hvernig við drögum úr losun og getum líka bundið kolefni betur með aukinni landgræðslu og skógrækt. Í öðru lagi er spurningin hvað við leggjum til mála á alþjóðavettvangi, hvar Íslendingar eru framarlega. Í þriðja lagi má velta fyrir sér hvernig við styrkjum innviði til þess að hafa betri ráð, eins og þingmaður gat um, regluverk og annað til að mæla og geta verið með samanburðartölur um hvernig okkur hefur tekist frá ári til árs að vinna að markmiði okkar. Markmiðið sem við setjum er að verða í fremstu röð þjóða. Nú byrjum við að vinna með Evrópuþjóðunum. Ég hef sagt fyrr í dag að ég vil að við reynum að komast í fremstu röð varðandi umhverfismál. Mér finnst ríkisstjórn Íslands sýna það sannarlega í verki þegar þrír ráðherrar halda blaðamannafund til að kynna það sem fram undan er.

Við verðum með margvíslega atburði í París. Meðal annars berum við þar ábyrgð á kynningu á fimm þáttum, þ.e. varðandi jarðhitann sem talið er að okkar þekking sé hvað fullkomnust um, landgræðsluna, við verðum með Veðurstofunni varðandi vöktun á jöklum og rannsóknastarf varðandi það. Síðan veit ég (Forseti hringir.) að hafið verður kynnt alveg sérstaklega og síðan norðurslóðamál. Ég segir nánar frá í seinni ræðu minni.