145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mér verður hugsað til kraftaverkasamkomunnar sem var haldin hér á dögunum þegar ég hlusta á talsmenn ríkisstjórnarinnar tala í þessum málum. Til þess að kraftaverkasamkomur virki þurfa þar að vera gestir sem trúa því að eitthvað merkilegt sé að fara að gerast. Hér hefur maður ekki trú á að eitthvað sé að fara að gerast. Maður sér engar aðgerðir í takti við þau orð sem látin eru falla. Það vantar að menn setji fram nákvæmlega hvað er að gerast í þessum efnum. Það er svo auðvelt að tala. Orð eru svo ódýr í þessum efnum. Þegar maður skoðar til dæmis það sem hæstv. forsætisráðherra sagði um þennan málaflokk í útlöndum og það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt og síðan það sem er útskýrt þegar heim er komið áttar maður sig á því að menn eru tilbúnir til að segja bara eitthvað en ætla síðan ekki að gera neitt. Í þessum efnum þarf að gera margt. Ríkisstjórnin hefur verið með yfirlýsingar frá því hún tók við á þessu kjörtímabili, í tvö og hálft ár, um að hún ætli að fara í aðgerðir til að efla vistvænar samgöngur. Það hefur ekkert gerst í þeim efnum.

Ég hvet ríkisstjórnina til að láta athafnir fylgja stórum orðum sem hér eru látin falla. Það er til dæmis hróplegur mismunur á því sem við Íslendingar erum að gera í samanburði við það sem Norðmenn og Svíar hafa sagst ætla að gera og þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér í þessum efnum. Það er hróplegur munur á því að ætla að taka þátt, lítið eyland í miðju Atlantshafi, í aðgerðum Evrópusambandsins og því sem Norðmenn segjast ætla að gera, en þeir ætla að draga sjálfir úr um 40% fyrir 2030, eða því sem Svíar segjast ætla að gera.

Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að láta athafnir fylgja þeim orðum sem hún lætur hér falla í dag.