145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil velta upp þeim fleti þessa máls sem lýtur að aðild Íslands að evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir þar sem um 40% losunar eru í sameiginlegu viðskiptakerfi Evrópulanda. Fyrirtæki fá úthlutað heimildum til að geta uppfyllt kröfurnar, annars vegar með minnkun losunar og hins vegar með verslun með heimildir.

Þrátt fyrir góðan ásetning og markmið með þessu viðskiptakerfi sem stundum er kallað loftslagskvótakerfið er full ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur. Kerfið á nefnilega ýmislegt skylt við annað kvótakerfi sem við þekkjum, kvótakerfi í íslenskum sjávarútvegi. Helsti ókostur loftslagskvótakerfisins er að það heimilar verslun með loftslagskvóta frá löndum eða svæðum sem menga lítið til svæða sem menga mikið og getur þannig leitt til þess að viðhalda mengun sem ætlunin er þó að minnka. Afleiðingin gæti orðið sú að markmiðið um minni losun verði þvert á móti til þess að auka losun frá því sem annars hefði orðið.

Með öðrum orðum, loftslagskvótakerfið felur ekki í sér minnkun heldur stöðvun þegar best lætur. Það er ekki alveg ásættanlegt markmið eins og staðan er núna. Þetta tel ég að stjórnvöld þurfi að íhuga mjög alvarlega enda eigum við Íslendingar mikið undir því að sett séu metnaðarfull markmið um árangur í loftslagsmálum. Við eigum að ganga lengra en meðalviðmið segja til um. Súrnun sjávar og breytt skilyrði vistkerfis í hafinu umhverfis okkur eru nú þegar farin að hafa geigvænleg áhrif á lífkerfi sjávar sem auðvitað hefur áhrif á fiskstofna okkar og þar með lífsafkomu þjóðarinnar.

Það er brýnt að Íslendingar stigi fast á fjöl, (Forseti hringir.) setji sér metnaðarmarkmið og fylgi þeim eftir með því að láta athafnir fylgja orðum.