145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Mig langar aðeins að fara inn í votlendisumræðuna. Votlendisvandamálið er stórt en ef ég skil rétt er það ekki inni í samningunum. Ekki stóriðjan og ekki votlendið. Það er það sem við þurfum að skoða. Stóriðjan er samt í alls konar aðgerðum til að reyna að minnka útblástur og losun gróðurhúsalofttegunda. Og það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að huga að bílaflotanum þótt hann eigi lítið hlutfall heildarlosunar. Við reynum að berjast á öllum vígstöðvum, það er spurning hvað við getum gert í votlendismálunum og við getum raunverulega gert eitthvað þegar kemur að bílaflotanum, það er tiltölulega auðvelt, sérstaklega með nýrri tækni.

Ég sendi hæstv. umhverfisráðherra fyrirspurn um stefnu ríkisstjórnarinnar í kaupum á vistvænum ökutækjum. Ríkið er auðvitað stór kaupandi. Maður getur velt fyrir sér hvort rafbílar séu ekki ódýrari í rekstri þótt þeir séu jafnvel dýrari í innkaupum fyrir t.d. lögregluna sem þarf að keyra mjög mikið. Mér fannst svörin ekki nógu góð og ekki sýna að afgerandi stefna væri í gangi.

Loftslagsmálin snúa mjög mikið að neyslu, neysluháttum okkar og venjum. Þetta snýst mikið um að hver og einn líti í eigin barm og reyni að gera eitthvað. Enginn getur gert allt en allir eitthvað. Það hafa verið mér vonbrigði að þegar ráðherrar hafa keypt nýja ráðherrabíla undanfarið hafa þeir ekki valið umhverfisvænasta kostinn, þeir hafa ekki gengið á undan með góðu fordæmi. Það finnst mér ámælisvert. Þess vegna finnst mér erfitt að hlusta á yfirlýsingar á hátíðarstundum um að við ætlum að standa okkur svo og svo vel þegar fólk getur ekki einu sinni, þegar snýr að því sjálfu, tekið lítil skref í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda, (Forseti hringir.) sem ég held að allir í dag séu orðnir sammála um að sé mjög mikilvægt.