145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Loftslagsmálin eru mikilvæg. Ég held að allir séu sammála um það. Þetta er eitthvað sem efnahagslíf heimsins fylgist með og mun taka þátt í. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa stefnuna á hreinu. Það er hlutverk stjórnvalda að hafa skýra stefnu og framtíðarsýn sem iðnaðurinn og efnahagslífið í heild sinni getur horft til og séð hvernig það getur stýrt sínum framkvæmdum inn á þá stefnu. Þetta snýst ekki allt um opinbert fé og verður ekki allt mælt með því. Þetta snýst ekki um hvað ríkisstjórnin setur mikla fjármuni í aðgerðir til að draga úr losun. Þetta snýst um það hvernig við fáum fólkið í samfélaginu til að taka þátt í þessu með okkur. Þetta verður að vera alls staðar.

Þess vegna held ég að sé mikilvægt að við gerum þetta á þann hátt að við gerum stefnumótun í hverjum málaflokki fyrir sig og séum samkvæm sjálfum okkur. Gott dæmi eru ökutækin sem oft er talað um. Ef við mundum auðvelda fólki að endurnýja ökutækin sín þá kaupir það alltaf ökutæki sem menga minna hvort sem það eru bílar sem nota jarðefnaeldsneyti eða rafmagnsbílar eða annað. Við eigum ekki að setja fókusinn á eina leið heldur á það sem skilar bestum árangri, ekki bara að veðja á rafmagnsbíla, kannski nær einhver annar betri árangri. Kannski mengar meira að framleiða rafmagnsbílinn. Við þurfum að hafa samkeppni og skýr markmið. Þá fer sá sem framleiðir þennan orkukost að dreifa innviðunum. Við eigum ekki að byrja á að koma upp innviðum en hafa ekki stefnu um hvernig við eigum að fjölga umhverfisvænum kostum. Við þurfum að hafa þetta á hreinu.

Eins getum við nefnt dæmi í sjávarútveginum. Meiri hluti útgerða hefur ekki efni á að kaupa umhverfisvænni skip því þær borga svo há gjöld til hins opinbera, plús það að óvissan er alltaf svo mikil, útgerðarmenn vita ekki hvað þeir eiga að fjárfesta til langs tíma. Þetta þurfum við allt að hafa uppi á borðum þegar við ræðum það hvernig við ætlum að ná árangri í loftslagsmálum.