145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar góðu umræður. Það er gott að heyra að hér er töluverður samhljómur sem eiginlega byggir undir það sem ég nefndi í minni fyrri ræðu, ég held að við eigum að taka betur höndum saman í þessum málum. Við eigum að vinna meira þverpólitískt og þverfaglega.

Reykjavíkurborg hefur farið þá leið, fyrir utan að marka mjög góða stefnu í þessum málum og líka raunhæfa, að ákveða að taka utan um vandann með fyrirtækjunum í borginni. Nýverið skrifuðu 103 fyrirtæki ásamt Reykjavíkurborg undir ákveðið markmið þegar kemur að loftslagsmálum. Mér finnst það ótrúlega vel gert og það er góð nálgun.

Ég held að við séum fulltrúar allra flokka saman á þingsályktunartillögu hv. þm. Elínar Hirst um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum. Það er gott og blessað að þrír ráðherrar haldi saman blaðamannafund en að mínu mati ætti ríkið í auknum mæli og ríkisvaldið meira að taka utan um allt sem er að gerast á stærri og breiðari hátt. Það er líka verið að vinna að þessum verkefnum á Akureyri og víðar. Þetta verður ekki gert af fólki hverju í sínu horni. Það er það sem ég átti við.

Ég tala um götótta sóknaráætlun vegna þess að mér finnst vanta umfjöllun um almenningssamgöngur. Áætlunin er ekki með mælanleg markmið eins og ég nefndi áðan að sjávarútvegurinn sjálfur hefði sett sér. Það er eins og við séum alltaf að elta og ég vil hvetja ráðherrann til dáða í þessu og bjóða fram krafta okkar í Samfylkingunni til að reyna að ná um þetta myndarlegri samstöðu þvert á flokka.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu og ítreka það sem ég sagði í upphafi, við þurfum að fara að rífa í handbremsuna og endurhugsa það algerlega hvernig við nálgumst þessi mál ef við ætlum að ná þeim árangri (Forseti hringir.) sem við höfum sett okkur.

Svo vil ég endurtaka spurningu mína til ráðherra vegna þess að henni var ekki svarað. Hún er svona: Kemur til greina að við tökum undir með öðrum eyríkjum sem fara (Forseti hringir.) fram á að við séum undir einni og hálfri gráðu í staðinn fyrir tveim gráðum?