145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vakti athygli á því í ræðu sinni að ég lagði spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra í gær, fimm tölusettar og skýrar spurningar. Ég er orðinn nokkuð hugsi yfir því hvernig tilburðir hafa verið uppi hér til að túlka eðlileg samskipti þingmanna við ráðherra þegar mál eru til umfjöllunar á Alþingi sem undir ráðherra heyra.

Ég sé ekki betur en að það þurfi að fara að rifja upp fyrir ýmsum að í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands stendur að hér sé lýðveldi með þingbundinni stjórn og í 14. gr. að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Í lögum um þingsköp Alþingis segir í 49. gr., með leyfi forseta:

„Alþingi, þingnefndir og einstakir alþingismenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Eftirlitshlutverk Alþingis snýr að ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum, sbr. 14. gr. stjórnarskrár.“

Í 3. mgr. segir:

„Eftirlitsstörf Alþingis gagnvart ráðherrum taka til opinberra málefna.“ — Það er svo nánar útlistað.

Í 50. gr. segir:

„Við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna og í skýrslum, hvort sem er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingmanna, svo og við athugun mála að frumkvæði fastanefnda þingsins, skal ráðherra leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu.“

Ég hef alltaf lagt þann skilning í að með þessu væri mjög rækilega um rétt þingmanna búið til að sinna eftirlitsskyldu sinni, til að krefja ráðherra svara. Þar sem það stendur beinlínis í lögum að þetta taki til umfjöllunar um þingmál hef ég litið á þetta sem mjög sterkan rétt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki sama sinnis? Erum við nokkuð á gráu svæði með að það sé réttur okkar sem þingmanna að óska eftir upplýsingum (Forseti hringir.) og svörum frá ráðherrum og að við eigum að fá þau?