145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. þingmanni um að okkar gamla stjórnarskrá er einföld í sniðum. Ýmislegt sem er hluti af stjórnskipun okkar er þar ekki skráð, í raun og veru kannski hvorki í stjórnarskrá né þingskapalögum. Þar má nefna þingræðisregluna sjálfa. En þá hefur verið litið svo á að við byggðum á mjög vel þroskaðri stjórnskipunarhefð, að það væri ríkjandi sameiginlegur skilningur um það hvað í því fælist sem byggði á stjórnarskránni og eðlilegri túlkun á henni út frá því stjórnskipulagi sem við búum við og nálæg lönd gera. Oft er þá litið til Danmerkur ef við erum í vafa um túlkun enda hliðstæður á ferðinni.

Að vísu á það ekki við í þessu tilviki því að hér var ég að vitna í mjög skýran lagatexta og lesa saman lykilákvæði stjórnarskrárinnar og þingskapalög í þessum efnum. Ég tel að það sé hafið yfir allan vafa að réttur þingmanna til að krefja ráðherra svara, óska eftir nærveru þeirra og fá upplýsingar um mál sem eru hér til umfjöllunar sé mjög sterkur í því skyni annars vegar að veita ráðherranum aðhald en hins vegar að þingið hafi allar upplýsingar og geti til dæmis fengið á hreint stefnu ráðherrans og áform áður en það afgreiðir í hans hendur einhverjar heimildir eða einhver lög til að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun eða gera eitthvað annað.

Ég held að við séum ekki í sjálfu sér í þeim vanda hér að við séum að styðjast við eitthvað sérstaklega óskýr ákvæði stjórnarskrár, þingskapalaga eða hefðir. Það sem ég er hins vegar órólegur yfir er þegar mér finnst vera farið að glitta í tilburði til að gjörbreyta túlkuninni að mínu mati á þeim samskiptareglum sem hér hafa alltaf verið, þeim sem ég hef lært á yfir 30 árum hér að væru tiltölulega óumdeildar. Það eru algjörlega nýir tímar að ganga í garð ef (Forseti hringir.) ráðherrar eiga bara að hafa sjálfdæmi um það hvort og þá hvenær þeir koma ef nærveru þeirra er óskað á þingi og hvort þeir svara yfir höfuð eða ekki.