145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var reyndar að velta því fyrir mér í gær við þessar umræður, eftir það atvik sem ég nefndi í ræðu minni í sambandi við hv. þingmann og afskiptaleysi hæstv. utanríkisráðherra, hvort það ætti ekki að vera hreinlega í þingsköpum að ráðherra væri skylt að svara í málunum sjálfum. Það eru dagskrárliðir á þinginu til að eiga samskipti við ráðherra, óundirbúnar fyrirspurnir, skriflegar fyrirspurnir o.s.frv., en það dugar lítið til þess að ræða mál efnislega í meira en tvær mínútur í einu. Dagskrárliður fyrir hvert mál er hugsaður til þess að ræða efnislega við ráðherra. Ráðherra gæti komið fram með þá ábendingu að hv. þingmanni væri fullkomlega frjálst að senda inn skriflega fyrirspurn eða eitthvað því um líkt en slíkt væri auðvitað fyrirsláttur, fyrirsláttur sem þó stenst líklega stjórnarskrárákvæðið. Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti um það. Reyndar er annað sem vantar að mínu mati, það að við getum ekki byggt mikilvægustu þætti stjórnskipunar okkar á hefð. Hefðir er auðvelt að brjóta og þegar þær eru brotnar í langan tíma hætta þær einfaldlega að vera hefðir. Það þarf að vera einhver skýrleiki í þessu og stjórnarskrá þarf að taka af öll tvímæli um svona mál eða í það minnsta lögskýringargögn með stjórnarskrá og síðan auðvitað úrskurðir dómstóla ef upp koma álitamál þess efnis. Það að byggja hlutina á hefð sem við gerum mjög mikið hér, miklu meira en ég tel hollt, hefur þá hættu í för með að þegar menn fara einfaldlega að brjóta hefðina verður hefðarbrotið að hefð í sjálfu sér.

Ég tel að þessi samskipti væru ekki umborin svo mikið af meiri hluta þingsins ef ráðherrar væru ekki líka þingmenn. Ef aðskilnaður löggjafans og framkvæmdarvaldsins væri skýrari, reyndar bara alveg kýrskýr og algjör, held ég að þetta væri minna vandamál, ekki endilega heildarlausn en vissulega minna vandamál.