145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það ekki flókið. Ég skil þó að fólk hafi alltaf áhyggjur af breytingum sem það upplifir sem einhvers konar grundvallarbreytingar. Ég vil meina að þetta sé engin grundvallarbreyting heldur að það sé einfaldlega slys að sú hefð hafi myndast að ráðherrar séu jafnan þingmenn. Ég trúi því eiginlega ekki að menn hafi virkilega ætlað sér að hafa fyrirkomulagið eins og það er orðið. Núna er komin mikil hefð fyrir stjórnarskrá okkar og mikil reynsla komin á það hvernig hún virkar í reynd. Ég vil meina að reynslan sé sú að Alþingi sé ekki nálægt því að starfa á þann hátt sem maður mundi búast við ef maður væri að hanna Alþingi frá grunni, ef Alþingi væri hannað þannig að hér væru rökræður fram og til baka og menn væru að sannfærast sitt á hvað eða að skiptast á skoðunum og sérstaklega að Alþingi væri að ákveða hlutina frekar en að ríkisstjórnin væri fyrst og fremst að ákveða hlutina, sem ég vil meina að sé tilfellið núna.

Fólk hefur stundum áhyggjur af þeirri hugmynd að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið á þeim forsendum að þá sé meira af fólki í stjórnarmeirihlutanum í þeim skilningi að maður taki saman þingmenn og ráðherra, sem eru þá væntanlega sjálfstæðismenn og framsóknarmenn og þá væri meira af sjálfstæðismönnum og meira af framsóknarmönnum. Þær áhyggjur eru að mínu mati algerlega ástæðulausar vegna þess að meginpunkturinn eða einn af meginpunktunum er sá að ráðherrar hafi þá ekki atkvæðisrétt. Ég vil taka það fram sérstaklega að þessi hugmynd birtist í frumvarpi stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga sem er mál sem okkur pírötum er mjög annt um. Það yrði ekki meira vald til staðar, valdinu yrði dreift og það yrði skorið á valdatengsl. Það er nefnilega ekki fjöldi fólks sem ákveður hver niðurstaða Alþingis er heldur fjöldi atkvæða og ef ráðherrar hafa ekki atkvæði þá er auðvitað engin valdaaukning í sjálfu sér, það eru bara fleiri til að tala, en maður dettur nú ekki um það að allt sé hér að drukkna í umræðum stjórnarmeirihlutans.