145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hennar. Það er eiginlega tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Annars vegar vék þingmaðurinn að því í sínu máli að henni þætti ekki nóg að gert í þróunarsamvinnumálum á Íslandi, þ.e. að verið væri að draga úr framlögum og við værum ekki að standa okkur sem skyldi og við værum ekki að gefa í núna þegar borð væri fyrir báru, eins og okkur væri sómi að í samfélagi þjóðanna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að samspil sé milli inntaks þessarar tillögu hér og þeirrar staðreyndar sem hv. þingmaður fór yfir. Ráðherrann og talsmenn meiri hlutans, þeir örfáu sem hafa tekið til máls, ítreka í máli sínu að þetta sé bara spurning um form en ekki inntak. Þetta er fyrri spurning mín.

Hins vegar langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann af því að við höfum freistað þess að finna einhverja lendingarfleti í málinu, hvaða leiðir þingmaðurinn telur færastar í þeim efnum. Við höfum nefnt tillögu sem hefur verið orðuð bæði við hæstv. forseta og fleiri sem fara með málið, þá tillögu einfaldlega að leyfa málinu að ganga fram en með frestun á gildistöku. Það er leið sem við höfum áður beitt þar sem um hefur verið að ræða mikil álitamál og það er lýðræðisleg nálgun. Þá erum við í raun og veru að gera kröfu um að málið fái nýtt umboð í næstu kosningum.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sjái fleiri leiðir í þessari flóknu stöðu en þá (Forseti hringir.) leið sem nú hefur verið nefnd en enn hafa ekki borist svör við.