145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Einn möguleiki væri hreinlega að leyfa þessu máli að fara í nefnd og sofna. Sleppa þessu bara. Það væri einn möguleiki. Ég væri mjög sátt við það akkúrat út frá þeim rökum sem komu fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, ég óttast að eitthvað týnist í þessari tilfærslu, aðhaldið, gagnsæið því að það gerist oft þegar svona framkvæmd á sér stað að kulnun verður í starfi. Ég þekki það, ég hef unnið fyrir fyrirtæki sem hafa sameinast og það verða miklar breytingar. Alveg sama hver viljinn er þá verða miklar breytingar og það þekkja þeir sem hafa til dæmis lent í svipuðum aðgerðum í stjórnsýslunni.

Varðandi viljann, framkvæmdina og fjárframlögin, stefnan endurspeglast auðvitað í fjárframlögunum. Þar kristallast öll pólitísk stefna. Það er ekkert sem gefur manni betri innsýn í stefnu stjórnvalds en fjárlögin. Ef maður skoðar viðmiðin okkar og stefnuna í gegnum fjárlög í tengslum við þróunarsamvinnu þarf maður ekki að leita lengra en í fjárlögin síðan núverandi ríkisstjórn tók við.