145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vildi fyrst inna þingmanninn eftir því hvort hún kunni einhverjar skýringar á því að eftir margra daga umræður í þingsalnum ljái stjórnarmeirihlutinn ekki máls á að vísa málinu inn til nefndarinnar aftur án þess að ljúka 2. umr., eins og gert hefur verið í öðrum málum, eða skjóta á óformlegum fundum til þess að leita sátta eða samninga. Hvað býr að baki því að enginn vilji er til að skoða sígildar lausnir sem oft hafa verið notaðar í deilumálum af þessu tagi, bæði þegar þessir stjórnarflokkar hafa verið í stjórn og stjórnarandstöðu? Að fresta gildistökunni, eins og hér var nefnt fyrr, fram á næsta kjörtímabil væri niðurstaða sem báðir aðilar ættu að geta sæst á.

Hvað telur þingmaðurinn að skýri hversu grýtta jörð allar sáttatilraunir í þessu máli falla í? Eru einhverjir hagsmunir sem ráða því að málið er keyrt fram af þessari hörku? Einhverjar aðrar skýringar? Mér virðist að minnsta kosti málefnalega vera erfitt að skýra að menn séu algerlega ófáanlegir til að skoða nokkrar minnstu breytingar á málinu eins og raunin virðist vera. Er þetta óöryggi af hálfu ráðherrans? Hvað orsakar þetta?