145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er mjög góð spurning. Auðvitað er það alltaf þannig að þegar tjöldin eru dregin fyrir út af stjórnsýsluformi er hættan sú að fólk falli í freistni. Sá möguleiki er alltaf til staðar og við höfum mörg dæmi sem sýna fram á að það geti hent hér eins og annars staðar. Því opnari sem leiðirnar eru til að hafa aðhald og gagnsæi í stjórnsýslu þeim mun betri verður stjórnsýslan. Það er mjög miður að við séum að fara í þessa vegferð án þess að fram komi nein almennileg, skýr rök fyrir framkvæmdinni. Ég er ekki á móti einföldun stjórnsýslunnar en ég sé ekki að þetta skapi meiri einföldun vegna þess að framkvæmdin sjálf verður flóknari, einfaldlega vegna þess að það sér hana enginn.

Nú á tímum kallar fólk eftir opnari og gagnsærri stjórnsýslu þar sem hægt er að beita meira aðhaldi, bæði fyrir blaðamenn og þá sem eiga að fylgjast með stjórnsýslunni og veita henni aðhald, eins og t.d. þingmenn. Alltaf skal vera fundin einhver leið til að sveipa utan um framkvæmdina einhvers konar hjúp. Það er ekki stjórnsýsla sem mér hugnast eða í þeim anda sem ég vil starfa.

Mér finnst mikilvægt að við finnum leið. Alveg eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á höfum við mjög nýlegt fordæmi um að meira að segja þingmaður Framsóknarflokksins náði að kalla fram einstaka sátt um gríðarlega erfitt mál þar sem voru færðar fórnir, (Forseti hringir.) en við náðum sátt um það á þverpólitískan hátt þrátt fyrir fórnirnar.