145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jafnvel þó að þessi breyting yrði til þess að auka skilvirkni, sem við skulum ekki rengja að ráðherrann dreymi um, þá eru það engir þeir hagsmunir að ekki megi fresta gildistöku þess um eitt ár eða tvö, í hinu stóra samhengi hlutanna, ef það væri til að mynda skref sem mætti tryggja áfram góða samstöðu um málaflokkinn.

Hvað varðar framlögin gætu þeir sem hrifnir eru af samsæriskenningum velt fyrir sér hvort þetta litla mál, sem í raun varðar aðeins skipulag málaflokksins en ekki innihald, sé látið vera svona fyrirferðarmikið og um það skapaðar svona miklar deilur til að breiða yfir að í raun og veru er ekki nægilega verið að vinna í innihaldi verkefnisins, þ.e. framlögum.

Ég vil trúa því að þar ætli menn að bæta framlag okkar Íslendinga. Þingmaðurinn spyr um afstöðu mína í því. Ég tók þátt í þeirri þverpólitísku samstöðu hér fyrir hrun sem ályktaði um að auka framlögin jafnt og þétt þar til þau næðu því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa miðað við. Við vorum því miður eftir hrunið ekki í færum til að fylgja þeirri áætlun eftir. Ég vonast til að hér geti verið þverpólitísk samstaða um að ljúka þeim leiðangri sem menn reyndu að fara saman í fyrir 2008. Mér finnst ekki gæfulegt innlegg í það að ætla að sundra með þrákelkni samstöðunni um málaflokkinn út af skipulagsatriði þegar það mikilvæga er að við aukum framlög okkar og framlag til að hjálpa ríkjum sem eru í þeirri stöðu sem við vorum sjálf í ekki fyrir allt of löngu síðan.