145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nefnilega ekkert skrýtið að það ríki ákveðin tortryggni gagnvart svona aðgerðum þegar tilfellið er að við stöndum ekki við það sem Alþingi hefur þegar ákveðið í sambandi við framlög til þróunarsamvinnu. Það þýðir ekkert fyrir Íslendinga lengur að bera því við að við séum svo fátækt ríki og aumingja við eftir hrunið. Við erum einfaldlega komin úr þeirri stöðu, blessunarlega. Þótt hér séu vissulega ýmis vandamál eru engar afsakanir fyrir því lengur að sveigja út af þeirri leið að ná þessum 0,7%.

Varðandi forgangsröðun. Það að ætla að auka skilvirkni er í sjálfu sér gott og blessað. En er þá ekki hægt að fara aðrar leiðir í því? Ein hugmynd hefur verið lögð fram, að færa stofnunina, Þróunarsamvinnustofnun, inn í utanríkisráðuneytið án þess þó að leggja hana niður, eitthvað sem virðist vera mögulegt út frá því sem maður hefur heyrt hingað til í ræðum stjórnarandstöðunnar. Svo hefur maður auðvitað ekkert heyrt um það frá stjórnarmeirihlutanum, því miður. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra fari yfir það í komandi ræðu sinni. Ég býst við að þar verði eitthvað af svörum og eitthvað að ræða um og fagna því reyndar að hann hafi sett sig á mælendaskrá, ef út í það er farið.

Stenst það að mati hv. þingmanns einhverja skoðun að við getum ekki haldið okkur við upprunalega áætlun um það hvernig við ætlum ná þessum 0,7%? Nú er talsvert síðan hrunið átti sér stað. Ríkissjóður stendur betur, íslenskt efnahagslíf stendur betur. Er einhver góð ástæða til að bregða út af þeirri leið að ná því markmiði á þeim tíma sem Alþingi ákvað?