145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ákveðnir hv. þingmenn í stjórnarliðinu, Jón Gunnarsson og Höskuldur Þórhallsson, eru eiginlega komnir í dýrlingatölu hjá okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að vera friðarins menn og fyrir að ná að stíga út úr átakafarvegi og semja um erfið mál, kerfisáætlun og náttúruverndarlögin, eins og hv. þingmaður og fleiri hafa komið inn á. Ég mundi ætla að hæstv. utanríkisráðherra vildi gjarnan komast í þann félagsskap og vera sá maður sem hefur þroska til að sjá að það er þinginu ekki til sóma að afgreiða þetta mál í miklum ágreiningi. Við höfum auðvitað ekki verið að ræða þetta mál svona lengi „af því bara“, heldur af því að okkur er mikið niðri fyrir. Við höfum áhyggjur af því hvernig þetta þróast og að hægt sé að gera þetta með betri hætti, kalla á meiri undirbúning fyrir þessa miklu ákvörðun.

Mig langar aðeins að heyra frá hv. þingmanni um aðkomu þeirra starfsmanna stofnunarinnar sem ættu að hafa mesta fagþekkingu. Þeir eru kunnugir starfseminni og þekkja hana vel. Þekkir hv. þingmaður hvernig aðkoma þeirra var að þessari ákvörðun? Eins og ég skil það hefur hún ekki verið mikil. Þeir hafa mótmælt þessari ákvörðun í umsögn sinni. Er ekki rétt að starfsmenn, forstöðumaður og framkvæmdastjóri, hafi miklu meira um það að segja ef farið er út í (Forseti hringir.) breytingu á því fyrirkomulagi sem reynst hefur mætavel?