145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að leiðrétta hv. þm. Helga Hjörvar sem talaði áðan. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég hafi staðfest hér að það væru hugmyndir embættismanna í ráðuneytinu að fara þessa leið. Það er rangt hjá þingmanninum. Það er mjög erfitt að þurfa alltaf að leiðrétta hv. þm. Helga Hjörvar þegar ýmsu er slegið fram sem á ekki við rök að styðjast.

Í gær var hér umræða eins og er búin að vera í marga daga og langan tíma. Nokkrar spurningar komu fram, flestum þeirra var reyndar svarað í skýrslu sem skilað var inn síðastliðið vor og einnig í ræðu minni en það er sjálfsagt að fara yfir nokkrar þeirra aftur.

Meðal annars var spurt um tillögur svokallaðrar DAC-nefndar. Ég tel mig hafa svarað þessu nokkuð vel og oft. Ég vil þó leiðrétta að í greinargerðinni sé að finna misskilning um ábendingar DAC. Það er alveg rétt að DAC lagði ekki beint til að ÞSSÍ færi inn í ráðuneytið eða ráðuneytið inn í ÞSSÍ eða hvernig það yrði enda mundu þeir aldrei gera slíkt. Það er ekki í þeirra verkahring. DAC sagði hins vegar nauðsynlegt að fyrirkomulagið yrði skoðað. Það er rétt að sú ábending kom áður en til kom breyting á hækkun framlaga okkar en það var þó ekki ástæða ábendingarinnar.

Í skýrslunni frá DAC kemur hins vegar fram að það sé orðið tímabært að Ísland skoði fyrirkomulagið, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að fyrirkomulagið á Íslandi er frábrugðið því sem gengur og gerist í flestum öðrum DAC-ríkjum. Að minnsta kosti um helmingur DAC-ríkja er með sérstaka stofnun sem sinnir tvíhliða starfi, það er rétt, en þar eru líka aðrar stofnanir sem eru mun stærri en ÞSSÍ og sinna stærri hluta þróunarsamvinnu.

Ég færi mig að næsta punkti. Ég held að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafi verið að velta fyrir sér að í greiningu Þóris Guðmundssonar eru skoðaðir ólíkir möguleikar. Einn þeirra er að styrkja ÞSSÍ og færa aðra þróunarsamvinnu þar inn, a.m.k. að auka alla tvíhliða samvinnu. Menn hafa nefnt þennan kost en ég vil þó ítreka að sá kostur gerir engan ágreining við meginniðurstöðu greiningar Þóris Guðmundssonar sem segir, með leyfi forseta, „að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni“.

Við erum líka með mjög litla stjórnsýslu, alveg eindæma litla stjórnsýslu til að sinna flestum þeim verkefnum sem okkur ber að sinna. Staðreyndin er þó sú að ef við værum að styrkja ÞSSÍ væri málaflokkurinn undir utanríkisráðuneytinu, og utanríkisráðherra að sjálfsögðu.

Einn misskilningur sem hefur komið fram er að Danida hafi ekki verið lögð niður. Danida-stofnunin var lögð niður á níunda áratugnum en hins vegar var nafninu haldið. Danir nota nafnið. Eitt af því sem við hyggjumst gera er að nota ICEIDA-nafnið. Það er þekkt erlendis og eru nokkuð mikil verðmæti í því.

Það er líka vert að nefna annað út af pælingunum um að öll verkefni yrðu færð til stofnunarinnar. Í athugasemdum stofnunarinnar við áfangaskýrslu Þóris Guðmundssonar telur ÞSSÍ það ekki skynsamlegt, það feli í sér of mikið inngrip í pólitíska stýringu, eftirlit o.s.frv.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi sérstaklega fagleg rök og taldi þau vanta. Ég hef áður sagt að það er ekki verið að benda á eitthvert eitt atriði sem er að hjá ÞSSÍ. Við viljum bæta, við viljum fá sterkari liðsheild sem vinnur að þróunarmálum. Það er það sem vakir fyrir okkur.

Svo ég endurtaki það sem ég hef áður sagt kemur fram í skýrslunni og við vitum það öll að íslensk stjórnsýsla er mjög lítil og fámenn og hver starfsmaður þarf að sinna margvíslegum hlutverkum. Við erum að tala um tvær mjög litlar einingar, annars vegar ÞSSÍ og hins vegar skrifstofu ráðuneytisins sem sinnir þróunarsamvinnumálum. Með því að færa ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að einfalda skipulagið. Við ætlum að nýta hvern starfsmann mun betur og þar með það fjármagn sem við veitum til málaflokksins.

Það er því miður staðreynd að þegar maður er með tvær litlar stofnanir í svipuðum málum getur orðið skörun verkefna. Það er verið að sinna fjármálum á báðum stöðum, kynningarmálum og árangurseftirliti. Það eru tveir gagnagrunnar fyrir verkefni. Utanríkisráðuneytið sér um upplýsingagjöf til DAC svo dæmi sé tekið og þá þarf ÞSSÍ að skila inn efni eða upplýsingum til ráðuneytisins. Samskipti nokkurra alþjóðastofnana fara bæði í gegnum ÞSSÍ og ráðuneytið. Maður veltir fyrir sér hvort það sé eitthvert vit í því í rauninni að vera með sömu mál eða svipuð á mörgum stöðum.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem spurði einnig um hagræðingu og sparnað. Ég held að ég hafi aldrei haldið því fram að það yrði, a.m.k. ekki í upphafi, einhver bein hagræðing eða tölulegur sparnaður af þessu. Það er heldur ekki verið að ræða um að draga úr framlögum til málaflokksins, alls ekki. Við erum að tala um að nýta betur starfskrafta, veita betri þjónustu og ef svo má að orði komast, eins og menn hafa nefnt hér, reyna að sinna enn betur þessu fátækasta fólki sem við viljum sinna og reyna að gera þá meira fyrir sama fé. Það má segja að til lengri tíma litið muni hugsanlega sparast einhver húsnæðiskostnaður ef starfsemin er á einum stað og stoðþjónusta.

Síðan var spurt um samþættingu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom einmitt inn á það og ég held líka hv. þm. Katrín Júlíusdóttir. Ég nefndi í máli mínu í gær að þróunarsamvinna er nú þegar unnin í utanríkisráðuneytinu. Þar í gegn fara um 60% alls fjármagns sem fer í þróunarsamvinnu í dag. Sú vinna byggist ekki á mínum áhuga eða forvera minna í ráðuneytinu, þannig er þessi skipting og hún byggist á þróunarsamvinnuáætlun sem fer í gegnum Alþingi. Þar er áætlun Íslands í þessum málum ákvörðuð. Það er líka óhætt að taka fram að í helmingi þessara svokölluðu DAC-ríkja er þróunarsamvinna alfarið í ráðuneytum.

Ekkert af því skipulagi sem við ræðum hér er hafið yfir gagnrýni, við vitum það algjörlega, ekkert frekar en annað sem við erum að sýsla með. Það skiptir þó mestu máli að málaflokkurinn hafi þungt vægi og að gott verklag sé viðhaft. Það er það sem við höfum verið að gera í ráðuneytinu, innan ÞSSÍ og ætlum okkur að gera áfram. Ég lít svo á að með því að hafa þetta allt saman inni í ráðuneytinu sé verið að styrkja vægi málaflokksins af því að þá gerum við þetta að miðlægu kjarnaverkefni í ráðuneytinu.

Hér var líka rætt um að eftirlit mundi hverfa. Að sjálfsögðu verður áfram lögð rík áhersla á gott eftirlit með verkefnum, eftirlit með að það fjármagn sem við veitum til þróunarsamvinnu skili sér þar sem mest þörf er á að það endi. Ráðuneytið hefur í dag eftirlit með ÞSSÍ og ÞSSÍ hefur eftirlit með framkvæmd í samstarfslöndunum. Heimamenn eru í dag sjálfir ábyrgir fyrir verkefnunum og sjá um framkvæmd þeirra. Umdæmisskrifstofurnar sinna hins vegar eftirliti með því að framkvæmdin sé samkvæmt þeim reglum sem um er samið og að það skili sér allt á réttan stað.

Það er náttúrulega ráðuneyti í því tilviki sem haft er eftirlit með framkvæmd verkefna í samstarfslöndunum sem heimamenn framkvæma, þ.e. þær skrifstofur sem verða áfram til eru og verða, eins og í Malaví þar sem menn munu sinna áfram þessum verkefnum.

Áfram verða gerðar reglulegar úttektir á þróunarmálum með sama hætti og gert er í dag og það á að sjálfsögðu bæði við um verkefni í samstarfslöndunum og þegar kemur að alþjóðasamstarfinu og alþjóðastofnunum. Það mun ekkert skorta á eftirlit.

Hér er sleginn sá tónn að það eigi að gleypa heila stofnun og eyða svo peningunum í eitthvað annað. Slíkur málflutningur er fráleitur. Það stendur ekki til og ég veit ekki hvaðan hugmyndin kemur. Ekkert í þessu frumvarpi gefur tilefni til slíkra vangaveltna.

Hér hefur líka verið nefnt að fjármagninu verði varið í önnur utanríkismál. Framlög til þróunarsamvinnu eru skilin frá annarri starfsemi utanríkisráðuneytisins, þannig er það og þannig verður það. Ef við skoðum fjárlögin fyrir það ár sem er að líða og tillögur í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 eru settir fjármunir í UNICEF eða eitthvað annað. Þetta er að sjálfsögðu bundið við þá liði.

Vitanlega er svo fylgt öllum verklagsreglum DAC o.s.frv.

Hér hefur líka aðeins verið rætt um starfsmannamál. Að sjálfsögðu verður farið að öllum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um biðlaun gilda almennar reglur og þær gilda um þetta. Ég vona hins vegar að allir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar muni þiggja störf í ráðuneytinu við áframhaldandi þróunarstörf. Þekking þeirra er mikilvæg og dýrmæt og við viljum að hún nýtist áfram.