145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi skipulag þessara mála í stærri ríkjum þykist ég muna að í einhverjum fleiri löndum ef ég man rétt, til dæmis í Danmörku á köflum að minnsta kosti, hafi menn verið með undirráðherra eða svona junior ráðherra sem hafa verið með þróunarmálin sérstaklega og jafnvel í sumum ríkjum eru þeir ráðherrar fleiri en einn. Heyra vissulega kannski undir ráðherra sem fer með aðalforsvar í ráðuneytinu en eru sjálfstæðir í störfum að mörgu leyti. Slík hugmynd hefur meira að segja verið rædd hér, í okkar litla Stjórnarráði, kæmi til þess að bætt yrði við viðbótarráðherrum í einhver ráðuneyti, eins og reyndar er heimild til í stjórnarráðslögunum, og væri utanríkisráðuneytið kannski hvað nærtækast vegna ferðalaga og fjarveru þess sem fer með þau mál.

Eftir stendur eitt sem hæstv. ráðherra sagði og það eru starfarökin, að stofnunin sé mjög lítil. Já. Hún er það vissulega, alla vega á alþjóðlegan mælikvarða, en Ísland er mjög lítil og þetta er engin dvergstofnun, hvorki í veltu né starfsmannafjölda á íslenskan mælikvarða. Við höfum lært að sníða okkur stakk eftir vexti í uppbyggingu okkar opinberu þjónustu (Forseti hringir.) og stjórnsýslu og við verðum að gera það. Það hefur tekist vel í þessu tilviki. Ég held því að þetta séu ekki rök gagnvart skipulagi í stjórnsýslu á Íslandi.