145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vitanlega segja að þegar settur er fingurinn á hvað er lítil eða stór stofnun þá er eflaust hægt að rökræða það. Ég hygg þó að færa megi rök fyrir því líka að jafnvel á íslenskan mælikvarða sé tíu manna stofnun, sem er starfsstöðin hérna heima, átta til tíu manns, frekar lítil stofnun. En það má alveg rökræða þetta að sjálfsögðu.

Við fáum út úr þessu rúmlega 20 manna lið sem vinnur að fjölþjóðlegri og tvíhliða þróunarsamvinnu sem ég held að muni skila okkur betri árangri. Það er rétt hjá hv. þingmanni að undirráðherrar eru í einhverjum löndum sem sinna þróunarmálum. Danir voru með það en ný ríkisstjórn Dana ákvað að hverfa frá því. Ég veit ekki af hverju það var. Ég átti ágæt samskipti við þann undirráðherra sem var með þennan málaflokk áður. Það er alveg rétt að ýmsar leiðir eru farnar í þessu.

Hugmyndin um annan ráðherra í (Forseti hringir.) utanríkisráðuneytið er mjög, mjög spennandi, ég verð að segja það og mundi ég jafnvel fagna því.