145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gleðiefni að hæstv. utanríkisráðherra kom hérna til umræðu og hélt þessa fínu ræðu með svörum og guð má vita hverju.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra nánar út í Danida og Norad þ.e. dönsku og norsku þróunarsamvinnustofnanirnar. Nú nefndi hæstv. utanríkisráðherra í ræðu sinni að Danida hefði farið undir utanríkisráðuneytið og einungis haldið nafninu. Í umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands frá því í fyrra kemur fram að ÞSSÍ hafi getið sér ákveðinn orðstír og sé ákveðið vörumerki í þróunarsamvinnu Íslendinga. Það var ein af áhyggjunum sem var lögð fram gegn því að leggja stofnunina niður og færa hana í utanríkisráðuneytið versus það að færa hana í utanríkisráðuneytið án þess þó að leggja stofnunina niður.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort hæstv. utanríkisráðherra gæti hugsað sér þann valkost að færa stofnunina í utanríkisráðuneytið þótt hún heiti áfram ÞSSÍ og sé enn þá það vörumerki, ef svo mætti að orði komast, sem hefur getið sér þetta góða orð.