145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var að sjálfsögðu vel farið yfir allar þær tillögur sem Þórir Guðmundsson leggur til, bæði í áfangaskýrslunni og síðan í lokaskýrslunni.

Ég vil líka minna á að það eru 40–50 tillögur lagðar til í þessari skýrslu. Það var hins vegar mín ákvörðun, það var á mína ábyrgð, að fara ekki ofan í smæstu tillögurnar, reyndar ekki smæstu, þær eru margar mjög viðamiklar, um hvernig á að framkvæma þróunarsamvinnu og ýmislegt annað. Ég taldi að það væri ekki rétt að gera heldur ætti að láta það eftir starfsmönnum, í rauninni í sameinaðri stofnun, að útfæra sumar eða allar tillögurnar eftir því hvernig starfsfólkið eða sérfræðingarnir meta hvernig best er að gera það.

Það var niðurstaða okkar, og í samræmi við það sem kemur fram í lokaskýrslu Þóris Guðmundssonar, að sameining inn í ráðuneytið væri sú leið sem væri vænlegust til að ná betri árangri, búa til meira lið, betri þróunarsamvinnu, (Forseti hringir.) fara betur með fé og slíkt. Þegar ég segi fara betur með fé á ég við að fara betur með hið takmarkaða fé og fá meira út úr því. Það er ekki verið að segja að það sé einhvers staðar farið illa með fé. Alls ekki.