145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þórir Guðmundsson sagði fyrir utanríkismálanefnd að sá kostur að styrkja ÞSSÍ kæmi fyllilega til greina. Það að fresta gildistökunni felur þó ekki annað í sér en það að starfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fær að halda áfram í tvö ár. Starfsemi þar sem starfsmennirnir eru ósáttir við þessar skipulagsbreytingar og fá þá einhvern aðlögunartíma að.

Hverju í ósköpunum væri ráðherrann að fórna með því að koma til móts við þau sjónarmið? Er ráðherrann að segja að það séu ekki rök í málinu að mikilvægt sé að hafa þverpólitíska samstöðu um þróunarsamvinnu? Finnst ráðherranum það ekki vera sjálfstæð rök í málinu? Finnst ráðherranum ekki ástæða til að gera neitt til þess að koma til móts við önnur sjónarmið í málinu? Er það einhvers konar persónulegur metnaður ráðherrans að ljúka þessu máli um litla stofnun sem varðar hvorki hagræðingu né sparnað og er í góðu standi eins og hún er? (Forseti hringir.) Er alveg ómögulegt að fresta gildistökunni í þennan stutta tíma til þess að ná saman um málið? Er það ekki virði í sjálfu sér að sameinast í málinu?