145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann súmmeraði ágætlega upp það sem maður hefur velt fyrir sér, hvers vegna menn vilja keyra svona mál áfram í ófriði. Hér hefur því verið haldið fram af þeim sem hafa talað fyrir málinu að þetta sé smotterísbreyting, þetta var kallað mýfluga og fyrr í dag sagði formaður þingflokks framsóknarmanna að við værum að gera úlfalda úr mýflugu. Ráðherrann hefur sjálfur sagt að þetta sé smotterísformbreyting o.s.frv. Þegar maður horfir á feril málsins var ljóst á síðasta þingi að um þetta var mjög deilt og á það deilt af minni hluta þingsins. Síðan kemur málið aftur hingað óbreytt í haust. Það er keyrt með mjög óvenjulegum hraða og offorsi í gegnum nefnd, það er óvenjulegt að umsagnarfrestur líði og daginn eftir sé boðað að menn geti fengið gesti en það breyti engu því málið verði samt rifið út úr nefnd á þeim degi sem gestirnir koma, tveimur dögum síðar, sem var gert þrátt fyrir mjög hörð mótmæli þeirra sem sitja í minni hluta nefndarinnar.

Spurning mín til hv. þingmanns er því: Miðað við hvernig menn keyra þetta mál, og núna erum við einnig komin inn í kvöldfund, telur hann ekki svolítið vel í lagt af hálfu ráðherrans og stjórnarmeirihlutans fyrir litla mýflugu og eitthvað sem er breyting sem engu ætti að skipta, engin eðlisbreyting heldur smotterísformbreyting? Ef þetta er svona lítil breyting, af hverju heldur hv. þingmaður að menn séu að keyra þetta með jafn miklum fautaskap í gegnum þingið og raun ber vitni?