145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja hv. þingmanni það að ég er honum hjartanlega sammála í því sem hann sagði hér á undan. Ég vildi óska að við værum að ræða hvernig við getum aukið framlag okkar til þróunarmála frekar en að standa í þessu. Ég vildi líka óska að við værum með ríkisstjórn sem berðist jafn hart fyrir því og færi fram af jafn mikilli ástríðu með slíkt mál og þeir gera í þessu máli, máli sem ég tel vera afar slæmt fyrir málaflokkinn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Í umræðunni höfum við nokkur borið þetta saman við það að taka aðrar ríkisstofnanir inn í ráðuneyti sem byggja á gríðarlegri sérþekkingu, eins og t.d. Vegagerðina. Þá hafa þeir sem tala fyrir þessu máli, þeir fáu, sagt í frammíköllum að það sé algerlega ósambærilegt. Ég er því algerlega ósammála sjálf, ég tel þetta að fullu sambærilegt. Eini munurinn er sá að það er hugsanlega of mikil dreifing á verkefnum tengdum þróunarsamvinnu, eins og fram hefur komið í ágætum greiningum. En þá væri eðlilegt skref að færa verkefnin inn í Þróunarsamvinnustofnun. Samanburðurinn við Vegagerðina finnst mér mjög viðeigandi vegna þess að þar fer fram mjög sérhæfð framkvæmd á verkefnum, alveg eins og þróunarsamvinna er. Hún er viðkvæm og hún er sérhæfð, gríðarlega sérhæfð. Mig langar að heyra hvernig hv. þingmaður lítur á þetta út frá því sjónarhorni séð.