145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Áður en ég vík að því þingmáli sem hér er til umræðu langar mig til að trúa hæstv. forseta fyrir því, og þingheimi, að það kætti mig örlítið þegar ég opnaði inn á alþingisvefinn í morgun og sá dagskrá þingfundar í dag. Ekki svo að skilja að það gerði mig sérstaklega glaðan í sinni, það var frekar út í hið grátbroslega, en sjaldan hefur ein ríkisstjórn opnað eins glögglega inn í sálarlíf sitt og í þessari dagskrá sem hefur í rauninni bara tvö mál, hrossakaupamálin tvö, annars vegar óskabarn hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar og hins vegar óskabarn fjármálaráðherrans Bjarna Benediktssonar, um opinber fjármál. Það var vitað og er löngu komið fram að þetta eru málin sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að klára fyrir jól. Síðan er að sjálfsögðu fjárlagafrumvarpið. Öllu öðru hefur verið ýtt til hliðar. Hér voru á sínum tíma málefni fatlaðra, alþjóðasamningar um réttindi fatlaðs fólks. Þessu var öllu sópað út af borðinu svo Þróunarsamvinnustofnun og síðan opinber fjármál kæmust inn á vinnsluborð Alþingis. Mig langaði að segja hæstv. forseta frá þessu, deila þessari kæti minni frá því í morgun.

Síðan langar mig að segja að ég held að það hefði verið til góðs ef hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefði komið fyrr til þessarar umræðu. Við vörðum miklum tíma í ræðuhöld undir liðnum fundarstjórn forseta til að óska eftir því að ráðherrann kæmi á fundinn og svaraði eins og hann leitaðist við að gera hér í kvöld. Fyrir utan að vera sjálfsögð kurteisi greiðir þetta að sjálfsögðu fyrir umræðunni því að það er verið að ræða þetta mál af mikilli alvöru. Það er svolítið sérstakt, og ég hef áður vakið athygli á því sem ég held að hafi gerst í þessu máli, að margir blönduðu sér í umræðuna í upphafi nánast af skyldurækni, að sjálfsögðu allir þeir sem koma nálægt utanríkismálanefnd og þeim þáttum, áhugafólk um þróunarsamvinnu sem er margt fólk í þinginu, en eftir því sem umræðan þróaðist hitnaði í henni, einfaldlega vegna þess að menn sannfærðust um að það væri verið að fara í ranga átt með þessu máli.

Það sem mig langar til að nefna í þessu sambandi er mikilvægi þess að hafa sjálfstæða stofnun sem sinnir þessum málum. Ég held reyndar að það eigi við um mjög margar stofnanir í mjög mörgum tilvikum. Jafnvel þegar hagræðingarrökin vega þungt skulum við ekki vanmeta þetta. Við höfum velt því fyrir okkur að sjálfsögðu, gerðum það þegar atvinnuvegaráðuneytið var stofnað, að það væri hagræði í því að vera með ráðuneyti sem sinnir atvinnulífinu almennt og helstu atvinnuvegum landsins. Menn sjá líka veikleikana í því gagnvart til dæmis landbúnaði. Það var styrkur í því fyrir landbúnaðinn að hafa tiltekið ráðuneyti sem hafði ekki um neitt annað að hugsa en landbúnað. Það er styrkur í því. Þess vegna hef ég getað skilið sjónarmið sem fram hafa komið hjá þeim sem standa að Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Ég er sannfærður um að ýmis hagræðingarrök hníga í þá átt að það geti verið gott að sameina skólann á Hvanneyri Háskóla Íslands. Ég þekki þá umræðu ekki svo vel að ég geti sagt neitt um það af viti, en ég skil hitt sjónarmiðið líka.

Á síðasta kjörtímabili reyndi ég að koma á laggirnar því sem átti að heita Happdrættisstofa til að halda utan um tugmilljarðaveltu í happdrættismálum, spilakassana og happdrættin. Þá sögðu menn og hafa sagt: Er ekki alveg eins gott að hafa þetta í ráðuneytinu eins og það er að hluta til eða koma þessu fyrir hjá sýslumannsembættum? Ég held ekki. Ég held að það sé nefnilega iðulega annað að fela stofnun að annast tiltekið verkefni og svo er hitt að þegar það er komið inn í stærra samhengi vilja málin drepast á dreif. Þannig er þetta. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að viðhalda þessari stofnun.

Í upphafi þessa kjörtímabils heyrði umhverfisráðuneytið undir atvinnuvegaráðherrann og það var talað um það, ef ég man rétt, að sameina jafnvel umhverfisráðuneytið atvinnuvegaráðuneytinu. Menn kunna að minnast þessa. Hefði það verið gott? Ja, hugsanlega í hagræðingarskyni, já. Ég þekki ekki stjórnsýsluna á þessu sviði til að tala um þetta af neinu viti en við skulum ekki vanmeta það að hafa umhverfisráðuneyti sem sérstaklega stendur vaktina fyrir umhverfismálin. Þetta er atriði sem mér finnst alveg vert að leiða hugann að í sambandi við niðurlagningu á Þróunarsamvinnustofnun og þessa tillögu um að færa hana undir regnhlíf utanríkisráðuneytisins. Ég efast ekkert um að þar er hægt að finna einhverjar hagræðingarbrautir en við skulum ekki gera lítið úr því hvað gerist þegar sjálfstæð stofnun sem á að sinna tilteknu, afmörkuðu verkefni er lögð niður og sett inn undir miklu stærra samhengi.

Síðan langar mig til að segja að í ljósi þessarar miklu umræðu er sitthvað sem við þurfum að hugleiða, líka hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi þarf hann að spyrja sjálfan sig: Hvernig stendur á því að umræðan er svona mikil? Hvernig stendur á því að fólk kemur aftur og ítrekað í ræðu og jafnvel til að þæfa málin? Það gera menn iðulega til að ná talsambandi við ráðherra og þjóðina, þeir vilja vekja athygli á málinu, láta það ekki lokast inni og klárast og það er það sem er að gerast í þessu máli. Hvernig stendur á því? Getur verið að það sé mikil alvara sem knýr fólk áfram, mikill sannfæringarkraftur og alvara? Ég held það. Ég held að ekki hafi margir í þingsalnum sannfæringu fyrir því að þessar breytingar séu til góðs.

Síðan verð ég að segja, hæstv. forseti, að færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að við eigum að hinkra við og horfa til þess sem er að gerast á alþjóðavettvangi. Menn hafa vísað ítrekað til vinnu á vegum OECD, svokallaðrar DAC-nefndar sem er að skoða þessi mál og mun gera skýrslu á komandi ári. Við eigum að bíða eftir þessari skýrslu. Í millitíðinni getum við tekið upp viðræður með þverpólitískri aðkomu, þetta á að vera þverpólitískt mál, þetta er ekki flokkspólitískt mál og á ekki að vera það, og þar yrði rætt hvort það væru einhverjar millileiðir, sáttaleiðir eða málamiðlunarleiðir. Ýmsar leiðir hafa verið nefndar í þessari umræðu. Mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra eigi að taka þau tilboð um samstarf alvarlega.