145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðuleg forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans. Ég held að við deilum skoðun í þessu máli. Það er ýmislegt sem við höfum verið að reyna að varpa ljósi á í þessu, af hverju menn eru að keyra þetta svona hart fram.

Við höfum haldið því fram með réttu að um gríðarlega viðkvæman málaflokk sé að ræða og ekki sé viðeigandi að keyra hann áfram í ófriði eins og gert hefur verið í þessu máli og rjúfa þannig ágæta samstöðu sem verið hefur þverpólitísk um langa hríð. Þá höfum við gjarnan fengið þau svör að við séum að gera úlfalda úr mýflugu. Í gær var sagt við mig að þetta væri einhver stærsti úlfaldi úr minnstu mýflugu sem viðkomandi hefði séð hér, það sem við værum að gera úr þessu máli.

Ef þetta er svona lítið mál eins og ráðherrann hefur sagt, að þetta sé bara smávægileg stjórnkerfisbreyting, og breyti engu fyrir málaflokkinn, veltir maður því fyrir sér hvers vegna menn eru þá að keyra þetta hér í gegn með þessum hætti. Veit hv. þingmaður eitthvað um það? Hvers vegna er verið að skapa þennan ófrið? Hvers vegna er verið að keyra þetta á afar óvenjulegan hátt gegnum nefndina, eingöngu gefnir tveir fundir eftir að umsagnarfresti lauk með dags fyrirvara eða dags millibili o.s.frv.? Svo er verið að keyra hér inn í kvöldfundi og enginn vill ræða við okkur um tillögur okkar um það hvernig við gætum mögulega lent þessu til að freista þess að skapa aftur frið um þennan málaflokk.

Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að hæstv. ráðherra sé ekki að segja okkur satt og rétt frá þegar hann heldur því fram að þetta sé smámál ef miðað er við það hvernig menn keyra þetta hér í gegnum þingið og af hvílíku afli menn eru að því hér og nú?