145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti líka samtal hér við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon áðan um þetta atriði og það er samanburður við aðrar stofnanir sem eru jafn sérhæfðar og Þróunarsamvinnustofnun er. Hv. þingmaður hefur verið innanríkisráðherra og Vegagerðin hefur til dæmis verið í umræðunni. Hún er gríðarlega sérhæfð og sér um framkvæmd á ákveðnum sérhæfðum verkefnum, fjölbreyttum, og heldur vel utan um það í faglegri stofnun.

Stjórnarþingmenn hafa haldið því fram að þetta sé algerlega ósambærilegt. Þar greinir okkur verulega á, ég tel að þetta sé einmitt mjög sambærilegt. Þarna ertu með málaflokk sem krefst mjög mikillar faglegrar þekkingar, mikils undirbúnings og mikillar vandvirkni og er gríðarlega sérhæfður eins og ég sagði áðan.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon svaraði mér ágætlega og benti á að málaflokkurinn þróunarsamvinna væri jafnvel enn sérhæfðari og viðkvæmari en vegagerð og að því leyti til væri þetta kannski ósambærilegt. Þá væri enn meiri ástæða til að hafa sérstaka stofnun utan um þróunarsamvinnuna til að tryggja að þeir fagmenn sem á því sviði starfa fái frið til að sinna störfum sínum án þess að menn væru kannski með þessi pólitísku áherslumál sín inni í þróunarsamvinnunni hverju sinni.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns gagnvart þessu. Allt sem er í gangi í þessu máli segir mér í fyrsta lagi að menn viti ekki hvaða málaflokk verið er að fjalla um og hvers eðlis hann er og í öðru lagi að þeim sé algjörlega sama um hann og hafi ekki áhuga á þróunarsamvinnu. Þess vegna (Forseti hringir.) haldi þeir því fram að þróunarsamvinna þurfi enga sérstaka stofnun, að um sé að ræða verkefni sem geti allt eins verið inni á skrifstofu í ráðuneyti.