145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum það frumvarp sem gerir ráð fyrir að Þróunarsamvinnustofnun verði rennt inn í ráðuneyti, hún lögð niður og fari inn í utanríkisráðuneytið.

Ég sagði frá því í fyrri ræðu minni um málið að ég fékk ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum að fara á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Þar áttum við samtal við marga aðila sem vinna meðal annars að þróunarsamvinnu og ýmsum málum innan Sameinuðu þjóðanna og mjög oft bar Þróunarsamvinnustofnun á góma að fyrra bragði hjá erlendum fulltrúum Sameinuðu þjóðanna sem fóru undantekningarlaust mjög fögrum orðum um starf stofnunarinnar. Fram hefur komið í umræðum að enginn hafi kvartað undan störfum þeirrar stofnunar, og það er sannarlega ekki vegna þess að menn hafi eitthvað við störf eða starfsmenn stofnunarinnar að athuga að hún er lögð niður. Það held ég að sé áreiðanlegt.

Reyndar fékk hæstv. utanríkisráðherra líka gott hrós í New York á allsherjarþinginu, ekki síst fyrir þátttöku hans í verkefninu „HeForShe“. Menn voru ánægðir með þátttöku hæstv. utanríkisráðherra og fleiri Íslendinga í því verkefni. Þróunarsamvinnustofnun hefur því getið sér gott orð og við getum verið stolt af því og við vorum það, íslenskir þingmenn, á þingi Sameinuðu þjóðanna. Við vorum svolítið montin af því hve margir töluðu vel um þessa stofnun. En hana á sem sagt að leggja niður og það erum við að ræða hér.

Tillögurnar byggjast að einhverju leyti á skýrslu Þóris Guðmundssonar. Skýrslan var unnin að beiðni hæstv. utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, og markmiðið með skýrslunni var að finna út úr því hvernig hægt væri að efla árangur og skilvirkni í málaflokknum. Meðal tillagna í skýrslunni er að skipulag þróunarsamvinnu verði fært frá Þróunarsamvinnustofnun til utanríkisráðuneytisins og að Ísland skerpi áherslur og fækki samstarfslöndum í því skyni að auka skilvirkni og áhrifamátt framlaga sinna. Ísland starfar aðallega í þremur löndum, Malaví, Mósambík og Úganda. Verkefnin þar snúast um mæður og börn og menntun og heilsugæslu aðallega. Það er ekkert land sem starfar í eins fáum löndum og Ísland gerir núna. Þó að Ísland sé með smærri verkefni í öðrum löndum þá eru það aðallega þessi þrjú lönd sem um ræðir og það er undarlegt ef við ætlum að fara út í það að fækka þeim, ég vona að það standi ekki til.

Hæstv. utanríkisráðherra kom í umræðuna eftir að við höfðum kallað á hann og beðið eftir honum og ég var ein af þeim sem voru afskaplega ánægð með að hann skyldi koma. Hann hefði mátt koma fyrr og spara okkur tíma. En þá svaraði hann spurningum sem höfðu vaknað í umræðunni og talaði meðal annars um að það væri fráleitt að sú hugmynd um að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður væri komin frá hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar. Mér fannst hann tala eins og hann vissi ekki einu sinni að hagræðingarhópurinn hefði nefnt Þróunarsamvinnustofnun. Það er samt ekkert undarlegt að mér skyldi hafa dottið þetta í hug, að það gæti nú kannski verið ástæðan. Hv. stjórnarþingmenn sem voru í hagræðingarhópnum eru ákaflega fylgnir sér, leyfi ég mér að segja, og þeir hafa lagt á það mikla áherslu að ráðuneytin fari eftir þeirra tillögum.

Hagræðingarhópurinn setti fram 111 tillögur og tillaga númer 30 er svona: „Framlög til þróunarmála verði endurskoðuð og nýleg hækkun dregin til baka.“

Og það var gert. Hækkunin var dregin til baka og svo á að endurskoða enn frekar framlög til þróunarmála. Ég vil benda í þessu sambandi á umsögn Rauða krossins sem fjallar um þetta og vekur athygli á hinu lága framlagi Íslands til þróunarmála og talar um aðstoð við flóttafólk. Í umsögn Rauða krossins segir, með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi er vert að nefna að skilgreining þróunarnefndar OECD (DAC) telur aðstoð við flóttafólk í tólf mánuði falla undir þróunarsamvinnu. Gildir þá einu hvort um sé að ræða umsækjendur um hæli, þá sem fá réttarstöðu sína sem flóttamanns viðurkennda eftir hælismeðferð eða þá flóttamenn sem ríkisstjórn Íslands býður hingað til lands í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, hérlend móttökusveitarfélög og Rauða krossinn. Framlag til málefna flóttafólks á Íslandi gæti því verið einn liður Íslands í að auka enn frekar framlög til þróunarmála.“

Ég held að það gæti verið góð hugmynd og ég bæti því líka hér við að við verðum með ákveðna upphæð, fasta, á ári hverju sem gerir ráð fyrir móttöku kvótaflóttafólks hingað til lands.

Rauði krossinn gerir eftirfarandi breytingartillögu, með leyfi forseta:

„Lagt er til að breytingar verði gerðar á 2. mgr. 6. gr. sem verði þá svohljóðandi:

Í stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu skal tilgreina áætlun um hvernig markmiðinu um að 0,7% af vergum þjóðartekjum verði náð með skýrum og áfangaskiptum tímasetningum. Á sama hátt skal tilgreina fyrirhugað hlutfall framlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum og hvernig þau skulu skiptast á grundvelli stefnumiða Íslands í þróunarsamvinnu.“

Þetta var gert á síðasta kjörtímabili, en ný ríkisstjórn tók það úr sambandi og alveg í takti við tillögur hagræðingarhópsins.

Hér er önnur tillaga frá hagræðingarhópnum. Hún er númer 24 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðherra móti framtíðarstefnu um skipulag og vinnubrögð utanríkisþjónustunnar. Meðal annars verði horft til samspils og verkaskiptingar utanríkisráðuneytisins, annarra ráðuneyta, Íslandsstofu, Þróunarsamvinnustofnunar og sendiskrifstofa. Þróun utanríkisþjónustu nágrannalandanna verði skoðuð og leitað fyrirmynda um nýsköpun sem bætt getur hagkvæmni og árangur.“

Þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem jafnframt er formaður fjárlaganefndar og sat í hagræðingarhópnum, talaði um þessar tillögur lýsti hún því sérstaklega yfir að skorið yrði niður til þróunarsamvinnu og talaði um að það væru bara fyrstu skrefin sem hún var að segja frá þarna. Það er því ekki undarlegt þó að mönnum detti í hug að þarna sé hæstv. ráðherra að koma til móts við tillögur hagræðingarhópsins, eins og svo margir hafa gert, en því miður eru þær ekki allar jafn góðar og eru þær tvær sem ég nefndi áðan ekki síst slæmar.

En hagræðingarhópurinn talar um að horfa eigi til útlanda og skoða hvernig skipulagið er þar og það er mjög algengt að skipulag þróunarsamvinnu sé með svipuðum hætti og er hér. Í minnihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar er einmitt bent á að Ítalir hafa nýlega gjörbreytt því fyrirkomulagi sem þeir voru með í ráðuneytinu, ef ég skil þetta rétt, og í staðinn setja þeir á fót sérstaka stofnun eins og við erum með. Það væri kannski ráð að líta til reynslu annarra landa. Eins og ég sagði áðan er ekkert land með jafn fá lönd undir í þróunarsamvinnu sinni og Ísland og þá væri frekar ástæða til að auka við. Við eigum auðvitað, rík eins og við erum, að gera að minnsta kosti áætlun um að nálgast viðmið Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð.