145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ýmsu hefur verið velt upp í þessari umræðu og þar á meðal meðferð fjármuna. Það eru auðvitað gífurlegir fjármunir sem fara í þetta þó að við vildum gjarnan að við Íslendingar uppfylltum markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af vergri landsframleiðslu, að við stefnum að því, þá eru þarna miklir fjármunir undir. Talað er um að það sé hátt í 5 milljarðar í allt. Það er eitthvað um 40% af því sem fer í Þróunarsamvinnustofnun í dag og 60% af þeirri upphæð sem fer í ráðuneytið undir þá annars konar starfsemi sem er flokkuð líka undir þennan lið.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í eitt. Ef starfsemin fer hugsanlega inn í ráðuneytið, hvernig er hægt að fylgjast með því hvernig fjármunirnir eru nýttir? Er ekki hætt við því að þetta verði svolítið ógagnsætt og kannski verði ekki eins hægt að lesa út úr því hvernig þeir fjármunir nýtast í það sem þeir hafa verið að nýtast í í dag? Og hvort hægt verði að fylgja því eftir að það fjármagn, hlutfall, sem er ætlað í þá þróunarsamvinnu sem er undir Þróunarsamvinnustofnun í dag, skili sér örugglega í þann málaflokk. Að hættan sé sú að tilhneiging verði til þess að því verði blandað svolítið saman og hvort ekki verði erfitt fyrir fjárlaganefndarmenn líka að greina þarna á milli, hvað fellur undir hvaða lið, þetta verði svolítill hrærigrautur og ógagnsætt.