145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Það sem hefur helst verið gagnrýnt af stjórnsýslufræðingum og sérfræðingum á þessu sviði er að við þá aðgerð að renna Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið og talað hefur verið um að starfsmennirnir nýtist í önnur verk þá verður, eins og hv. þingmaður ýjaði að, framkvæmdin og eftirlitið á sömu hendi. Það þykir ekki góð stjórnsýsla.

Síðan hafa menn haft áhyggjur af því að sérþekkingin sem myndast hefur í Þróunarsamvinnustofnun muni glatast. Ef starfsmenn taka þátt í öðrum störfum innan ráðuneytisins muni sú þekking þynnast út.

Einnig hefur verið bent á að verkefnin sem Þróunarsamvinnustofnun er að vinna að eru langtímamarkmið. Það gerist allt fremur hægt og rólega og ekki er tjaldað til einnar nætur heldur er áætlun sett upp til margra ára. En önnur verkefni innan ráðuneytisins eru kannski með öðrum hætti eins og utanríkissamningar o.s.frv.

En fyrst og fremst hafa sérfræðingar í stjórnsýslufræðum bent á að þetta sé ekki góð stjórnsýsla og það væri þá nær að taka verkefnin sem eru skyld verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar og fara með þau inn í stofnunina. Það væri skynsamlegra en að setja stofnunina inn í ráðuneytið.