145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann kvarta undan því að Þróunarsamvinnustofnun tali ekki í takt við utanríkisstefnu landsins, þó að ég hafi heyrt kvartað undan öðrum háttsettum Íslendingum sem eru taldir reka sína eigin utanríkisstefnu. Ekki hef ég heyrt það þegar kemur að Þróunarsamvinnustofnun.

En ég vil segja að ég get vel skilið hæstv. utanríkisráðherra sem hefur lent í því að ráðuneyti hans hefur orðið fyrir mestum niðurskurði undanfarið. Ég get vel skilið að hann vilji fá fleiri hendur til að vinna verkin í ráðuneytinu. En ég held að þetta sé ekki leiðin til þess.

Ég vil taka undir hugmyndir hv. þingmanns um að skynsamlegra væri að taka aðeins hlé og setjast niður, utanríkismálanefnd fundi um málið og reyni að finna sáttaflöt. Ég hef heyrt það á ræðum hv. þingmanna á undanförnum dögum að menn eru tilbúnir til að lenda málinu með einhverjum hætti þó að menn séu ekki tilbúnir til að sleppa því óbreyttu frá þinginu.