145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. fjárlaganefnd hefur ekki farið ofan í saumana á þessu enda eru engar tillögur gerðar um Þróunarsamvinnustofnun í fjárlagafrumvarpinu, ef ég man rétt. Þó má það vera, ég kann ekki frumvarpið alveg utan að. En alla vega er ekki gert ráð fyrir neinum útlátum.

Ég er á því að hæstv. ráðherra vilji reyna að styrkja stjórnsýsluna innan ráðuneytisins, eins og hv. þingmaður nefnir, en geri það þá með þeim hætti að stjórnsýslan í kringum þróunarsamvinnuna veikist. Það hafa sérfræðingar gagnrýnt opinberlega í fjölmiðlum og innan nefnda þingsins. Þeir hafa sagt að þetta sé vond stjórnsýsla, að þarna sé framkvæmd og eftirlit á sömu hendi, að þarna séu miklir fjármunir og hugsanlega glatist sérfræðiþekking og að þetta sé ekki góð leið.

Satt að segja hef ég ekki heyrt góð rök fyrir því að fara þessa leið. Ég hef ekki einu sinni heyrt góð rök frá hæstv. ráðherra. Ég held því að það sé óumflýjanlegt að nefndarmenn í hv. utanríkismálanefnd setjist niður og reyni að finna flöt á því að leysa þann hnút sem málið er komið í, því að hv. þingmenn sem hér hafa talað við undanfarna daga munu ekki sætta sig við þetta skipulag í kringum (Forseti hringir.) þróunarsamvinnuna.