145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ástæða til að halda þessu máli á lofti áfram, enn um sinn eins og stundum er sagt hér. Ég hef verið að rifja upp og fara í gegnum skýrslu sem utanríkisráðherra gaf um skipulag þróunarsamvinnu samkvæmt beiðni. Þegar maður rennir í gegnum hana sést að hún er skrifuð í svolítið mikilli vörn. Það er eins og verið sé að reyna að réttlæta fremur en að sannfæring sé fyrir því sem verið er að reyna að gera. Þar er sagt að tilgangurinn með því að færa Þróunarsamvinnustofnun inn í ráðuneytið sé fyrst og fremst að ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokknum. Það er eins og ekki virðist koma til greina að þeim markmiðum megi ná með því að færa verkefnið út úr ráðuneytinu og inn í Þróunarsamvinnustofnun. Það undirstrikar kannski það sem kom fram í andsvörum áðan, tilgangurinn með því að færa þetta væri frekar að styrkja veikt ráðuneyti en að bæta málaflokkinn eitthvað sérstaklega. Það er einu sinni svo að þegar fjallað er um eitthvað sem er vel rekið og gengur vel og engar athugasemdir gerðar við það þá eru hæpin rök að segja: Við erum að gera þetta til að gera enn betur.

Ráðherra hefur furðað sig á því, og það kemur líka fram í skýrslunni, að þegar verið er að ræða um þróunarsamvinnu á þingum og í fjölmiðlum snúist það gjarnan um innihald, svo sem fjárhag og framlag og hvernig þau eru nýtt, til hvaða landa og með hvaða hætti og áherslum en ekki skipulag framkvæmdarinnar. Við höfum gjarnan viljað ræða það við ráðherra, aukin framlög og að styðja betur og styrkja við þróunarsamvinnuna. Við höfum tekið fram að það væri samtal sem við vildum eiga við hann fremur en að standa í að ræða þetta á þennan hátt. En útgangspunkturinn er ekki að leysa vanda varðandi árangur og hagkvæmni, segir hér, heldur að breyta skipulagi í takt við þróun sem hefur átt sér stað og fyrirsjáanlegt er að muni halda áfram.

Það hefur töluvert verið skrifað um þetta. Heimsljós hefur tekið það saman og farið í gegnum söguna og meðal annars rætt þá þróun sem hefur átt sér stað, sem er miklu frekar í þá átt að ráðuneytið hefur verið að draga til sín verkefni sem ættu heima undir Þróunarsamvinnustofnun, það hefur ásælst þau verkefni fremur en hitt. Það er kannski sú þróun sem verið er að vitna í.

Mér fannst líka merkilegt að lesa svar við 6. spurningu í skýrslu ráðherra þar sem rætt er hvort hefði ekki mátt fara þveröfuga leið, þ.e. að færa verkefni til Þróunarsamvinnustofnunar, eins og niðurstaða síðustu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var samkvæmt reglugerð árið 2005. Vitnað er í skýrslu Þóris Guðmundssonar sem er undir skýrslu ráðherra og ræður ákvörðun hans. Skýrsluhöfundur leggur til þrjá kosti og er kostur 1 að færa alla þróunarsamvinnu undir utanríkisráðuneytið og kostur 3 að færa verkefni til Þróunarsamvinnustofnunar. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að kostir 1 og 3 kæmu helst til greina og segir að með kosti 2, óbreyttu ástandi, sé sneitt hjá þeim galla að ráðuneyti og undirstofnun þess séu nánast samkeppnisaðilar á markaði þróunarsamvinnu. Það virðist sem svo að þeir sem undirbúa þennan samruna líti þannig á að Þróunarsamvinnustofnun Íslands sé í samkeppni við ráðuneytið um þróunarsamvinnu. Það finnst mér afar sérstök nálgun.

Í skýrslu Þóris kemur líka fram að þróunarsamvinna sé ekki lengur einfalt framkvæmdaratriði og eigi ekki að vera það og að stefnumótun og eftirlit séu meginverkefni nútímaþróunarsamvinnu. Ef flest núverandi verkefni yrðu færð til Þróunarsamvinnustofnunar væri eftirlitið og stefnumótunin eftir sem áður í ráðuneytinu. Það sé jú hefðbundin verkaskipting ráðuneyta og stofnana.

Þetta eru rökin fyrir því að ekki væri hægt að einfalda starfið. Þá má líka draga þá ályktun að önnur ráðuneyti nái ekki fram hagkvæmniárangri eða öðru slíku í ljósi þessarar fullyrðingar um verkaskiptingu ráðuneyta og stofnunar.

Þetta eru átök sem hafa staðið í mörg ár og það er verið að rifja þau upp, var gert í Heimsljósi og líka í Stundinni. Þar var farið í gegnum það að sex ráðherrar hafa fengið þetta í fangið og reynt hefur verið að yfirtaka stofnunina á einhvern hátt í öll þessi skipti. Þrátt fyrir það hafa ráðherrar ekki látið plata sig í þetta, burt séð frá því í hvaða flokki þeir hafa verið. Ég velti fyrir mér þeim hugleiðingum sem hér koma fram þar sem talað er um að fjármunir til þróunaraðstoðar hafi aukist og með því hafi utanríkisráðuneytið fært sig inn á svið tvíhliða aðstoðar og tekið að sér verkefni sem hafa tilheyrt Þróunarsamvinnustofnun. Þannig hafi utanríkisráðuneytið tekið á sig að veita jafn mikla tvíhliða aðstoð og veitt er fyrir milligöngu Þróunarsamvinnustofnunar og í raun grafið markvisst undan stofnuninni. Hins vegar eru mjög ólíkir starfshættir og verklag á milli þessara tveggja aðila. Eins og við vitum og höfum rætt hefur Þróunarsamvinnustofnun þróað verklag sitt samkvæmt reglum sem settar eru af DAC og stuðst er við á alþjóðavettvangi þar sem ítarlega er skilgreint hvaða skyldur aðilar taka á sig, á meðan ráðuneyti gera það ekki, og að óháður matsaðili fari yfir verkefni þegar samningum lýkur og þau eru tekin út, hvað tókst og hvað tókst ekki. Það er ekki gert í ráðuneytinu. Öll verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið að síðastliðin 25 ár eru samkvæmt því verklagi. Allt er þetta opinbert, allar skýrslurnar. Engin verksamningar hafa verið gerðir í ráðuneytunum. Engar framvindu- eða verklokaúttektir hafa verið gerðar hjá ráðuneytinu, allavega ekki sem við höfum komist í tæri við.

Ég hef áhyggjur af því að ekki sé tekið tillit til til dæmis álits félagsvísindasviðs, þ.e. það sem doktor Jónína Einarsdóttir gerir þar sem hún horfir til reynslu Norðmanna af því að færa þróunarstarf undir pólitíkusana, en hún hefur gagnrýnt þetta mjög. Mér þykir mjög bagalegt að það skuli ekki gert. Ég velti því líka fyrir mér hvort hreinlega sé verið að búa til ferla fyrir starfsmenn í ráðuneytum, einhverja stökkpalla til vegtyllu. Því er líka velt upp í fjölmiðlum og þegar maður stendur frammi fyrir því að það eru ekki rökræður, ekki samræður í gangi milli þeirra sem vilja að þetta frumvarp nái fram að ganga fer maður að geta í eyðurnar. Rökstuðningurinn sem kemur fram í þessari skýrslu er of veikur til að eftir standi sannfæring fyrir því að þetta sé skynsamlegt. Þeim tilgangi að gera gott starf betra verður einungis náð að mati utanríkisráðuneytisins með því að færa stofnunina inn í ráðuneytið. Þrátt fyrir aðvaranir um að það sé ekki skynsamlegt, að verklag og framkvæmdir, eftirlit, skýrslugerð og annað sé þá á einni hendi, er það ákvörðun ráðherra. Ég tel að okkur beri skylda til að reyna að spyrna við fótum, eins og við höfum gert, og koma í veg fyrir að þetta frumvarp nái fram að ganga.