145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi kannski byrja á að inna hana eftir einu vegna setu í fjárlaganefndinni, um reynsluna af breytingum eins og þessum. Ráðherrann hefur getið þess að ekki sé gert ráð fyrir að sparnaður eða hagræði verði af því að leggja stofnunina niður og taka hana inn í ráðuneytið eins og ætlunin er. En það er eins og mig rámi í að Ríkisendurskoðun hafi gert úttektir fyrir hv. fjárlaganefnd á svipuðum aðgerðum sem hafi raunar fylgt talsverður kostnaður þegar í þær var ráðist. Maður spyr sig þá kannski enn frekar hvers vegna málið sé svo brýnt fyrst ekki er í því fólginn sparnaður en hugsanlega kostnaður.

Hins vegar vildi ég nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort hún sjái einhverjar leiðir til þess að sjónarmið í málinu geti mæst eða sáttum verði náð eða að minnsta kosti einhverjar breytingar verði á málinu sem stuðli að meiri sátt um meðferð þess í þinginu, hvaða atriði það væru sem helst mætti gera breytingar á að mati þingmannsins til að meiri sátt eða jafnvel full sátt gæti tekist um málið í breyttum búningi, eins og tókst um náttúruverndarlögin og kerfisáætlunina og ýmis önnur mál sem hafa verið unnin hér af metnaði og vandvirkni í nefndum þingsins þó að þau hafi komið ófullbúin frá ríkisstjórn.