145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en vil áfram inna þingmanninn eftir reynslu sinni af vettvangi fjárlaganefndarinnar, þá kannski sérstaklega að þeim atriðum sem lúta að annmörkunum við að taka þetta verkefni inn í ráðuneytið og leggja niður hina sjálfstæðu stofnun. Það er þá annars vegar eftirlitsþátturinn og hins vegar áhyggjur sem sumir hafa lýst af aukinni hættu á spillingu í meðhöndlun opinberra fjármuna og þá pólitískri spillingu og meðferð þeirra fjármuna sem er auðvitað mikilvægt að renni beint og heilt og óskipt til þróunarsamvinnunnar sjálfrar en ekki í einhvers konar gæluverkefni eða samstarf við atvinnulíf sem þjónar ekki fyrst og fremst hagsmunum þróunarsamvinnunnar heldur einstakra fyrirtækja eða hagsmunum í einstökum fyrirtækjum, eins og því miður eru allt of mörg dæmi um víða um lönd. Telur þingmaðurinn ástæðu til að hafa áhyggjur af þeim þætti sem afleiðingum af þessari breyttu skipan?

Síðan er það þessi málsmeðferð í utanríkismálanefnd, að málið hafi til að mynda verið afgreitt til 2. umr. í þinginu án þess að efnislega hafi verið farið í gegnum umsögn frá Rauða krossinum þar sem einar sex eða sjö efnislegar athugasemdir eru við einstakar greinar frumvarpsins. Telur þingmaðurinn ekki að það sé óforsvaranlegt í raun og veru og full ástæða til að láta málið ganga, án þess að 2. umr. ljúki, aftur til nefndar svo bæta megi úr þessu?