145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar, það er auðvitað ekki gott að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki á staðnum. Það má auðvitað segja að fjarvera hæstv. ráðherra sé lýsandi fyrir málatilbúnaðinn allan, allt frá því að ráðist var í þessa göngu með þetta mál án samráðs við alla stjórnmálaflokka á Alþingi. Þar með var rofin sú hefð sem hér hefur verið í málefnum þróunarsamvinnu, að hafa pólitískt samráð og skapa sátt um málaflokkinn.

Ég fór yfir það í ræðu minni í gær hversu mikilvægt það er út frá ýmsum ólíkum rökum að skapa sátt um þennan sérstaka málaflokk og hvernig öðrum ríkisstjórnum hefur tekist það. Það að hæstv. ráðherra kjósi að vera fjarverandi lýsir viðhorfi hans sem kannski má sjá einmitt í upphafi málsins, þ.e. að engin þörf var talin á því að eiga samráð eða samtal við stjórnarandstöðuna. Ég lýsi yfir megnri óánægju minni með fjarvist hæstv. ráðherra.