145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er búin að bíða hérna í allan dag eftir því að komast að og fá að eiga nokkur orð við hæstv. utanríkisráðherra. Það er almennur skilningur lögfróðra manna, svo ég leyfi mér að vitna í skýrslu sem var gefin út 2009, um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, að hafi alþingismenn ekki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum sé útilokað að þeir geti tekið sjálfstæða afstöðu í málum sem eru til umfjöllunar á Alþingi. Þá geta rangar eða villandi upplýsingar haft áhrif á afstöðu þingmanna og um leið á niðurstöðu mála.

Þó nokkur atriði í þessu máli hafa komið fram sem við höfum ekki fengið svör við. Ég krefst þess að ég fái að hafa hæstv. utanríkisráðherra í þinginu svo hann geti svarað spurningum. Ég er búin að spyrja hann oft og það eru allir búnir að spyrja hann oft og hann hefur aldrei náð að svara almennilega. Honum ber skylda til að svara okkur.