145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil líka fá að segja að fyrr í dag voru greidd atkvæði um að hafa kvöldfund. Ég greiddi atkvæði gegn því en stjórnarmeirihlutinn greiddi atkvæði með því að hér yrði kvöldfundur, líklega af því að þau þyrsti í að taka þátt í umræðunni á þessu ágæta miðvikudagskvöldi. Sá þorsti virðist hafa slokknað í millitíðinni og mig rennir nú grun í að flestir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans séu heima hjá sér með fjölskyldum sínum af því að þau vilja ekki ræða málefni þróunarsamvinnu við stjórnarandstöðuna. Af hverju vilja þau ekki ræða þessi málefni við okkur hér? Hvernig stendur á því að þetta ágæta fólk greiðir atkvæði með kvöldfundi þannig að málstofan Alþingi geti átt samtal en ætlar síðan ekki að taka þátt í umræðunni? Þau lýstu því samt yfir að þeim fyndist mjög gott að fá meiri tíma til að ræða þetta mikilvæga mál.

Ég spyr: Þarf forsætisnefnd Alþingis (Forseti hringir.) ekki að taka til skoðunar það einkennilega háttalag fólks að krefjast fundar sem það sækir svo ekki? Mér finnst þetta ekki góð nýting á tíma og við munum þurfa fleiri fundi til að geta tryggt að hv. þingmenn meiri hlutans geti verið á staðnum. Þau virðast öll upptekin annars staðar.