145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það runnu á mig tvær grímur þegar ég kom hingað inn. Í hvert einasta skipti sem ég hef verið hér á hinu háa Alþingi hefur verið til umfjöllunar eitthvert deilumál sem er runnið undan rifjum hæstv. utanríkisráðherra. Fyrst var það Evrópusambandið, þingsályktunartillaga um að draga umsókn okkar til baka, sem gerði allt vitlaust. Hvað gerði hann svo? Hann fór bara á bak við hið háa Alþingi og gerði það samt samkvæmt einhverju bréfi sem hann hafði nákvæmlega ekkert lögboðið umboð Alþingis til að senda. Síðan er það Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Það virðist vera mikil sundrung sem einkennir allar gjörðir hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst meiri hlutinn þegja þunnu hljóði þegar kemur að því að ræða mál hans. Ég held að það segi rosalega margt. Hún segir gífurlega mikið þessi þunna þögn frá meiri hlutanum, að meiri hlutinn sé ekki hér til að ræða þetta mál. Þetta eru umdeild mál. Þarna erum við að takast á um það hvernig við viljum hafa stjórnsýsluna okkar, hvort við viljum hafa sjálfstæða stofnun sem sér um tvíhliða samninga þegar kemur að Þróunarsamvinnustofnun. Það er grafalvarlegt mál að fólk firri sig þeirri lýðræðislegu ábyrgð sem fylgir því að vera kjörinn á Alþingi. Það er grafalvarlegt að meiri hlutinn taki ekki þátt í þessari umræðu og reyni að minnsta kosti að skilja af hverju við höfum áhyggjur af þessu. Og það er fásinna hvernig meðferðin var í nefndinni.