145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:57]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða þess að ekki hefur komið neitt í ljós um þennan meinta tvíverknað sé sú að Þróunarsamvinnustofnun Íslands sér einungis um tvíhliða þróunarsamninga meðan utanríkisráðuneytið fer með fjölþjóðlega þróunarsamninga. Þetta eru mjög mismunandi tegundir af þróunarsamvinnu. Tvíhliða þróunarsamvinna er vel skilgreint fyrirbæri, eitthvað sem við eigum í samstarfi við við ákveðin lönd úti í heimi. Þetta er frekar fullmótað og 70% af allri þróunarsamvinnu í heiminum eru tvíhliða þróunarsamningar. Hin 30% eru fjölþjóðlegir þróunarsamningar. Það er eins og UNDP og fleira í þeim dúr. Þar er meira ausið úr sjóðum til að vinna að sérstökum verkefnum hér og þar. Ég sé ekki hvernig það gæti fræðilega verið skörun þarna nema náttúrulega að því leyti að UN hlýtur að vera í Úganda rétt eins og Íslendingar geta verið þar, en það þarf ekki að vera tvíverknaður í því.

Varðandi það að verið sé að búa til einhvern ferðaklúbb. Ég náði nú að ferðast alveg helling þegar ég var fátækur stúdent. Á þingfararkaupi hefur maður jafnvel enn meira á milli handanna en fátækir stúdentar. Það þarf ekki alltaf að vera á fimm stjörnu hótelum út af einhverri ráðstefnu til að hafa afsökun til að ferðast. Ég held að það sé gott að skoða heiminn, rétt eins og hæstv. forsætisráðherra benti okkur öllum á. Við gætum öll farið að selja íbúðirnar okkar núna fyrst árar svona vel og farið að ferðast. En mér finnst skrýtin lykt af þessu öllu saman svo ég segi nú ekki meir.