145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu um frumvarpið en sjálfum mér til undrunar vannst mér ekki tími til að koma öllu frá mér sem ég vildi ræða í minni fyrri ræðu undir miðnætti í gærkvöldi.

Mig langar aðeins til að ræða um traust. Væntanlega væri hægt að ræða það margþætt og úr mörgum áttum en mig langar til að ræða það sérstaklega út frá málaflokknum um þróunarsamvinnu. Þróunarsamvinna er mjög sérstakt verkefni, að mörgu leyti ólíkt flestum opinberum verkefnum að því leytinu til að starfið felst í því að starfa með og styðja við samfélög sem eru yfirleitt langt í burtu og samfélög sem eru mjög ólík okkar. Þróunarsamvinna gengur í eðli sínu út á að samfélög og ríki sem eru rík, stöðug og búa við sterkar stofnanir styðja við ríki eða svæði sem eru ekki jafn heppin. Það er alls ekki sjálfsagt að standa í slíku starfi vegna þess að það segir sig sjálft að á svæðum þar sem stofnanir eru veikar eða lítil hefð er fyrir því sem við mundum kalla gagnsæ og vönduð vinnubrögð og kannski lítil þekking er fyrir, er allt öðruvísi að starfa en þar sem við þekkjum okkur. Eitt af því sem er svo skemmtilegt í þessari löngu umræðu og umfjöllun um þessa, ég leyfi mér að kalla ólukkanstillögu, er að upplifa hvílíkt traust Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur og hvílíka þekkingu og getu Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur sýnt nákvæmlega í þeim málum, að starfa við erfiðar og ólíkar aðstæður, finna samstarfsaðila og að vinna í samstarfi við þá sem hafa þekkingu til að koma fjármagninu þangað sem það nýtist best. Því miður eru allt of mörg dæmi um það í þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð að hlaupið er af stað í góðum hug og góðri trú, jafnvel er byggingarefni eða peningar komnir á einhverja staði þar sem engin leið er til að nýta þá.

Marga hefur maður heyrt tala um það, sem hafa starfað að svona málum, að það sé allt of rík tilhneiging til þess að elta einhverjar ákveðnar tískubólur, hvort sem það er á ákveðnum svæðum eða ákveðin verkefni, og allt í einu sitja menn uppi með það að þeir eru að drukkna í peningum til að bora brunna þar sem ekki skortir brunna eða enginn kann að bora eftir þeim, en engir peningar séu til til að reka sjúkrabíla eða ráða hjúkrunarfræðinga.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur ekki aðeins þessa faglegu þekkingu og getu til að inna svona verkefni af hendi og gera það vel, heldur hefur hún einnig áunnið sér traust í samstarfslöndunum, þeirra samstarfsaðila sem hafa verið valdir í héruðunum, sveitarstjórnum, í sjálfboðaliðasamtökum o.s.frv. Sömuleiðis traust yfirvalda á hverjum stað. Það er mikils virði og meira en að segja það vegna þess að maður hefur fengið þann vitnisburð frá mörgum löndun þar sem þróunarsamvinna er með miklu lengri sögu en hjá okkur, kannski miklu öflugri og með miklu meiri pening á milli handanna, að þar hefur illa farið þegar vantraust hefur myndast á milli þróunarsamvinnu, eigum við að kalla það gjafans eða þeirra sem veita aðstoðina, og stjórnvalda eða samfélaga þar sem hún er þegin.

Þetta er ekki eina traustið sem skiptir máli vegna þess að Þróunarsamvinnustofnun nýtur líka mikils trausts í íslenskri stjórnsýslu og íslenskri pólitík. Og það þykir mér vera alveg dæmalaust ánægjulegt hvernig það hefur komið fram trekk í trekk í máli þingmanna og gesta sem hafa komið fyrir utanríkismálanefnd og í máli hæstv. ráðherra að Þróunarsamvinnustofnun nýtur mikils trausts á Íslandi, stjórnsýslu og pólitíkur.

Þegar spurt hefur verið í umræðunni um staðhæfingar í greinargerð með frumvarpinu, um að mikilvægt sé að tryggja að þróunarsamvinnan sé í réttum takti við utanríkisstefnu Íslands o.s.frv., og fleiri spurningum hefur verið varpað þar upp, þá hefur hvorki hæstv. ráðherra né aðrir þingmenn viljað í raun og veru benda á einhver sérstök dæmi um að þetta hafi verið vandi eða að það hafi nokkurn tímann verið tilfellið. Það virðist því ríkja mikið traust til Þróunarsamvinnustofnunar sem er ekki skrýtið, þetta er fyrirmyndarstofnun.

Þriðja traustið sem mig langaði aðeins til að koma inn á í lok ræðu minnar er traust almennings, ekki bara á Þróunarsamvinnustofnun og störfum hennar, heldur líka á stjórnmálunum, stjórnmálamönnum og íslenskum ráðuneytum, sem verið er að leggja til að taki yfir yfirstjórn og ábyrgð á þessum málaflokki. Þar verður að segjast að síðustu árin höfum við ekki upplifað mikið traust, við stjórnmálamenn. Því miður virðist traust á okkar lykilstofnunum, eins og ráðuneytum, hafa fallið kannski í réttu hlutfalli við fallandi traust þeirra sem stýra þeim stofnunum. Það hlýtur að skipta miklu máli að þróunarsamvinna Íslands njóti ekki bara trausts okkar fulltrúanna á Alþingi, í stjórnmálunum og þeirra sem best þekkja í stjórnsýslu, í Ríkisendurskoðun o.s.frv., heldur að stofnunin og verkefnin njóti trausts og almenns velvilja hjá almenningi vegna þess að þróunarsamvinna er ekki gæluverkefni stjórnmálanna, þetta er ekki pólitísk ákvörðun hægri, vinstri, upp eða niður eða hvað, um að ákveða og fara í þróunarsamvinnuverkefni. Þetta er verkefni sem um hefur myndast breið sátt í stjórnmálunum, er hluti af alþjóðlegri hugmyndafræði um að minnka misvægi í heiminum og auka hamingju á svæðum í heiminum.

Almennt ríkir mikill stuðningur og velvilji til þessa hjá almenningi. Sá stuðningur, ég segi nú ekki að byggist á en auðvitað byggir hann á því trausti að vel sé að verki staðið, að þeim stofnunum sem hafa með þessi mál að gera sé treystandi, að störf þeirra séu gagnsæ og vel rökstudd, að eftirlit með starfseminni sé nægjanlegt, að það sé öruggt að þeir fjármunir — við skulum bara viðurkenna það, fjármuni er nú yfirleitt alltaf hægt að nýta vel einhvers staðar annars staðar, það á við um eiginlega alla nýtingu fjármuna — þ.e. Alþingi þarf að hafa það traust að vel sé farið með fjármuni, að faglega sé starfað og að þessar æfingar allar komi að gagni. Slíkt traust skiptir mjög miklu máli. Þegar almenn sátt tapast í stjórnmálunum, í stjórnsýslunni o.s.frv. á því hvernig eigi að halda á þessum málum þá er fullkomlega eðlilegt, og það er ágætlega rakið í rannsóknarskýrslu Alþingis frá árinu 2009, að almenningur klóri sér í hausnum og velti fyrir sér; jú, jú, þetta er nú örugglega allt saman ágætt, en það er ekkert sem segir mér að hér sé vel að verki staðið.

Traustið hlýtur að vera mikils virði og þess vegna hlýtur að skipta miklu að reyna að raska ekki þeirri sátt sem hefur verið um þróunarsamvinnumálin, það verður að segjast eins og er, um Þróunarsamvinnustofnun frá því hún var sett á laggirnar af hinum (Forseti hringir.) mikla Ólafi Jóhannessyni árið 1981, ef ég man rétt.