145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:12]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og verð að taka undir lokaorð hennar um að það skipti vissulega mjög miklu máli — og kannski vegna eðlis verkefnisins sérstaklega miklu máli — hvernig haldið er á málaflokknum og hvernig um hann er rætt og vélað. Sögulega er þróunarsamvinna og málefni þróunarsamvinnu ekki síst til að leiðrétta og koma til móts við afleiðingar af nýlendustefnu og alls konar arðráni henni tengt, þrælaverslun o.s.frv. sem eyðilagt hefur samfélög hingað og þangað um heiminn.

Þróunarsamvinna og langtímasamvinna um uppbyggingu getur komið til af öðru og ríkidæmi okkar norðar í höfum er ekki síst vegna þess hve við erum heppin með stöðu okkar í náttúrunni. Önnur ríki og samfélög búa við mikla erfiðleika vegna þess hversu óheppin þau eru með náttúruna, þurrka o.s.frv. Við þekkjum það öll úr umræðunni bara núna síðustu daga að staðsetning ríkja getur haft mikil áhrif á það hversu friðsamlegt eða ófriðsamlegt er á því svæði. Það eru miklar líkur á því að á næstu árum og áratugum verði ríkari og meiri þörf á aðstoð, samvinnu ríkra ríkja við fátæk, heppinna svæða við óheppin o.s.frv. vegna náttúruvár eða annarra vár en endilega þeirrar sögulegu. Þegar nýjar ástæður ýta á þetta samstarf þess heldur (Forseti hringir.) er mikilvægt að um það ríki sátt, og eigum við að segja sáttmáli, í báðum samfélögum að gefa og þiggja.