145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nefnilega það sem gerir mann svo reiðan í þessu máli, þetta snýst ekki um ólíka sýn okkar á það hvernig við högum okkar málum hér innan landsteinanna heldur snýst þetta hreinlega oft og tíðum um hendingu, eins og hv. þingmaður fór yfir. Þetta snýst ekki bara um söguna, arðrán vesturveldanna í þróunarlöndunum, þetta snýst líka um hendingu. Ríkin sem til dæmis eiga á hættu að fara undir vatn, út af hnattrænni hlýnun — ef hnattræn hlýnun fer yfir eina og hálfa gráðu fer fjöldi eyjaríkja undir vatn. Það eru fjölmörg fátækari ríki sem munu eiga mjög erfitt með að bregðast við loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingum sem líka eru til komnar vegna þeirrar mengunar sem vesturveldin hafa valdið. Hending — en eigi að síður, hvernig sem við skoðum ábyrgðina, þá endar hún alltaf hér í okkar heimshluta.

Þess vegna gerir það mann svo reiðan að hlusta á núverandi stjórnarmeirihluta kveinka sér undan því að hann hafi ekki efni á að verja almennilegum fjármunum til þróunarsamvinnu, að við séum of fátæk til að hækka framlag okkar til þróunarsamvinnu. Því miður getum við ekki staðið við þróunarsamvinnuáætlun sem hér var samþykkt á Alþingi og því miður getum við ekki einu sinni staðið við drög að þróunarsamvinnustefnu sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti sjálfur hér í júní. Við getum ekki látið meira af hendi rakna til þessara fátæku þjóða sem eigi að síður þurfa að taka afleiðingum af stefnu okkar sem við höfum stutt í okkar alþjóðlega samstarfi með öðrum vestrænum þjóðum þrátt fyrir að við kannski sjálf persónulega, sem erum hér akkúrat núna, berum ekki ábyrgð á þeim málum.

Það er þessi grundvallarspurning sem skiptir svo miklu máli og þetta mál er ekki nema einn angi af heildarsýn þessa stjórnarmeirihluta á þróunarsamvinnu. Meir hlutinn virðist því miður ekki einu sinni vilja (Forseti hringir.) horfast í augu við þá ábyrgð sem við berum sem velmegandi þjóð sem hefur ekki síst grætt á því hvar við erum stödd í heiminum og með hverjum við höfum skipað okkur í lið. Það væri óskandi ef hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hefðu áhuga á að ræða þetta mál hér þannig að við gætum heyrt þeirra sýn á þessa ábyrgð.