145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:17]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kröftugt andsvar og tek undir. Ég hef oft lýst því yfir að ég er seinþreyttur til reiði og pirrings, en ef það er eitthvað sem virkilega gerir þann þingmann sem hér stendur reiðan og pirraðan og jafnvel ráðvilltan þá er það þessi afstaða gagnvart þróunarsamvinnu, þessum verkefnum sem eiga að vera svo sjálfsögð okkur sem búum við heppni, búum við betra atlæti, betri möguleika o.s.frv. en meðbræður okkar.

Ég vil horfa aðeins öðruvísi, held ég, en hv. þingmaður á það nákvæmlega hvernig við tölum um annars vegar þessa heppni, eða þessa eigum við að kalla það yfirburði, ríkidæmi eða hvað, og hins vegar ábyrgð á vanda þeirra sem eru óheppnari. Ég held að málið sé ekki svo einfalt að þetta sé spurning um okkur hin heppnu, okkur sem berum ábyrgð, okkur sem sögulega berum ábyrgð eða hvað, og síðan hina sem eru fórnarlömb þess sama, vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta spurning um eina jarðarkringlu sem við búum öll saman á. Loftslagsvá af hverra völdum sem hún er, hvort sem er af iðnaði eða eldgosum eða utan úr geimnum þess vegna, er sameiginlegt vandamál allra á jörðinni, hún mun bitna misharkalega á svæðum og þess vegna skiptir máli að við séum öll í sama báti. Við ætlumst til þess, þegar bílslys verður, að allir hlaupi til sem vettlingi geta valdið til að hjálpa til. Það er það prinsipp sem ég held að skipti máli.