145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það verður að segjast eins og er að þetta atriði hefur mér þótt óþægilega óljóst í umræðunni en eftir því sem næst verður komist og því sem sagt hefur verið þegar spurt hefur verið þá er ekki gert ráð fyrir veigamiklum breytingum. Það er til dæmis gert ráð fyrir því að allir starfsmenn, fyrir utan kannski forstöðumanninn sem er nú óljóst, haldi störfum sínum og að í grunninn verði ekki breyting á. En auðvitað eru starfsmenn utanríkisráðuneytisins ráðnir og starfa undir öðrum formerkjum en aðrir ráðuneytisstarfsmenn þar sem starfsstöðvarnar eru víða um heim og þeir starfa undir svokallaðri flutningsskyldu um það að flytjast á milli starfsstöðva um heiminn.

Það er ákveðin hætta sem ég hef áhyggjur af, sérstaklega í svona litlu kerfi eins og hér, sem hefur komið í ljós þar sem starfsemi ráðuneytis og þróunarstofnana hafa runnið svona saman, og það er að það hefur myndast flutningsskylda og það hefur orðið spekileki sérfræðinga og fagaðila í þróunarsamvinnu sem eru skyndilega komnir í allt öðruvísi störf og öfugt. Maður hefur áhyggjur af þessu, sérstaklega í svona litlu kerfi eins og hjá okkur. Sömuleiðis er það raunveruleg áhyggja mín, þó svo að ég vilji engum einhverjar lævísar og illar áætlanir þar um, að með því að setja saman eða setja nær þess ólíku starfsemi þá fari menn að huga meira að íslenskum hagsmunum, viðskiptahagsmunum, pólitískum hagsmunum þegar verið er að véla um þróunaraðstoð heldur en hefur verið.