145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég verð að taka undir með honum, mér finnst þetta líka óþægilega loðið. Í greinargerð með frumvarpinu segir einmitt um starfsmannamálin að starfsmenn eigi að fá sambærileg kjör en nú muni starfsmönnum fjölga í þróunarsamvinnu og þar af leiðandi sé ekki hægt að ábyrgjast að þeir fái endilega sömu verkefni og áður. Það má sem sagt vænta breytinga á verkefnum starfsmanna ráðuneytisins er hafa hingað til gengt störfum á sviði þróunarsamvinnu.

Svo kemur fram að þingmönnunum verði boðið starf í ráðuneytinu eftir atvikum sem flutningsskyldir starfsmenn í utanríkisþjónustunni samkvæmt fyrrgreindum lögum. Hvað það felur í sér veit ég ekki, það eru þá væntanlega þeir sem nú þegar eru erlendis í þeim hluta af starfi stofnunarinnar sem verða með þessa flutningsskyldu. Þá velti maður fyrir sér: Eru menn þá í Malaví eitt árið og Washington það næsta? Og hvernig á að byggja upp? Er ekki hætta á spekileka? Þetta er eitt af þeim dæmum. Þegar maður rýnir betur þetta mál þá sér maður að það er ekki til þess fallið að efla Þróunarsamvinnustofnun Íslands heldur mun það breyta henni. Það mun draga úr þeim þætti sem lýtur að því sem er hin hefðbundna þróunarsamvinna, þótt margt annað sé gert hjá Þróunarsamvinnustofnun, sem lýtur að því að hjálpa til við uppbyggingu infrastrúktúrs, m.a. hvað varðar heilsugæslu og menntun og skóla. Þarna sé verið að breyta þessum sérfræðingum í generalista eins og (Forseti hringir.) þá sem starfa nú hjá utanríkisþjónustunni, sem er gott að hafa eðli málsins samkvæmt en á ekki við í þróunarsamvinnu.